Sandkluftavatn

Google Maps
Ornefni Atlas Sandkluftavatn 1Ad8

Sandkluftavatn

Sandkluftavatn (upphaflega Sandvatn) er lítið stöðuvatn norðaustan Ármannsfells. Það er skammt norðan Sandklufta og liggur upp við Sandvatnshlíðar í vestri og Lágafell í austri. Sandkluftavatn er grunnt og myndað af úrkomuvatni. Skilar það sér að mestu í norðanvert vatnið úr Sandvatnskvísl. Vatnsmagnið veltur á tíðarfari og í þurrkatíðum getur Sandkluftavatn jafnvel þornað upp. Ekkert frárennsli er úr Sandkluftavatni.

Upphaflegt nafn vatnsins er Sandvatn og kemur það bersýnilega fram í afleiddu örnefnunum Sandvatnshlíðum og Sandvatnskvísl. Einhver samblöndun hefur síðar orðið við örnefnið Sandkluftir (eða Kluftir) og stundum hefur rithátturinn verið Sandklettavatn.

Sandkluftavatn í frumheimildum

Vatnsins er getið í 29. kafla Sturlunga sögu og er þar kallað Sandvatn:

En þá fyrirbýður biskup öllum lærðum mönnum að ganga í flokk með honum en biður alla alþýðu til meðalgöngu með sér og til þess létust margir búnir mundu. En þá er Þorgilsi var fyrirkveðin þingreiðin af Hafliða þá hleyptu menn að móti flokkinum Þorgils og sögðu honum hvar komið var og hittu flokkinn fyrir norðan Sandvatn. Þar var þá sjö hundruð manna. Þar var beðið Styrmis Hreinssonar af Gilsbakka mágs Þorgils. Þar voru þá allir goðorðsmenn með Þorgisli fyrir vestan Bláskógaheiði nema Þórður úr Vatnsfirði. Og síðan tóku menn hjal með sér og umræður og löttu flestir þingreiðarinnar við svo mikinn liðsmun.“

Aftur er þess getið í 30. kafla Sturlungu:

Þá var fenginn til Báður hinn svarti og Aron son hans og nokkurir menn með þeim að ríða fyrir og bera njósn áður en saman lysti flokkunum. En meginliðið reið í fylkingu og beið í Víðikjörrum nokkura hríð, en reið svo ofan yfir háls að Sandvatni og töluðu margt um ráðagerðir og var farið heldur tómlega. Reið Þorgils í framanverðri fylkingu sinni.“

Sveinn Pálsson getur örnefnisins í ferðabók sinni sumarið 1792. Svo segir í íslenskri þýðingu Ferðabókar Sveins Pálssonar, 1983, bls. 106:

Skammt fyrir ofan Hofmannaflöt er lítið stöðuvatn, er Sandvatn eða Sandklettavatn heitir. Lengi fram eftir sumri fellur í það lítil á, sem komin er ofan frá Skjaldbreið. Vatnið hefur hins vegar ekkert afrennsli, og hafa menn því almennt trúað því, að það væri botnlaust. Að þessu sinni var vatnið algerlega þurrt, og í ánni var heldur ekki deigur dropi. Í hlíðinni rétt fyrir suðaustan vatnið sáust tvær stórar sprungur, er lágu frá norðri til suðurs. Þær munu hafa skapazt í síðustu landsskjálftunum, því að þær voru mjög nýlegar útlits.“

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir svo í riti sínu Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni, 1945:

Austan-við Ármannsfell er Lágafell, en í milli er mjór hryggur. Upp í hann að sunnanverðu eru skorur tvær eða skörð og lítið fell í milli, sem kallast Meyjarsæti, en skorurnar heita Sandklyftir; oft nefndar að eins Klyftir. Fyrir norðan hrygginn er allvítt svæði, þakið sandi, og er þar dálítið stöðuvatn, sem heitir Sandvatn, en á síðari tímum hefur það stundum verið kallað Sandklettavatn. [Í neðanmálsgrein: „Sennilega er það afbökun í framburði fyrir Sandklyftavatn.“]

Friðrik Björnsson skipstjóri segir svo í örnefnalýsingu sinni af Bláskógaheiði frá 1953:

„Fyrr á tímum var grasslétta ein mikil [sem hét Ormavellir] norðan Lágafells, milli þess og kvíslarinnar, sem á þessum stað heitir Sandvatnskvísl (23), eða nánar sagt heitir hún þessu nafni frá austurenda Tröllháls (24), til Sandvatns (25) (í þurrkasumrum þornar hún stundum upp á þessu svæði og hverfur í sandinn). Nú er grasslétta þessi horfin, og með henni einnig örnefnið „Ormavellir“, en í þess stað komin þar örfoka sandauðn.“

Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Hrauntúnsland og afrétti Þingvallahrauns sem rituð var í kringum 1980–1985:

„Sunnan við [Ormavallagil] eru melöldur all breiðar og ná þær suður að vatni sem heitir Sandvatn (25), en hlíðarnar heita Sandvatnshlíðar (26), all grónar, er þar oft gott krækiberjaland.

Kluftir (27) eru 2 leiðir sitthvoru megin við Sandklufta- vatn. Leiðin um Kaldadal og Uxahryggi lá um Ormavelli (28), fyrir Borgfirðinga og Norðanmenn og fór eftir vatnshæð hvoru megin farið var. Ef farið var með Ármannsfelli lá leiðin um Smjörbrekkuháls (29), sem er hálsinn sunnan við vatnið niður með Meyjarsæti (30) að vestan, erum við nú komin hringinn um Ármanssfell.“

Guðmann Ólafsson, bóndi á Skálabrekku, segir svo í athugasemdum sínum við skrá um örnefni í afrétti Þingvallasveitar árið 1982:

„Guðmann hefur alltaf heyrt Sandklyftir (21) nefndar Sandkluftir (53), og nafnið Sandklettavatn (20) kannast hann ekki við, heldur Sandkluftavatn (54). Sandvatnshlíðar (19) eru fyrir vestan Sandkluftavatn. Sandkluftir eru móbergsklettar, hálsar (og eiginlega fjöll) með skriðum og sandi, beggja megin við Meyjarsæti (55) og austan og suðaustan við vatnið.

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Sandkluftavatn inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.

Heimildir

Friðrik Björnsson. (1953). Bláskógaheiði. Örnefnastofnun Íslands.

Guðmann Ólafsson. (1982). Afréttur Þingvellinga. Athugasemdir og viðbætur [Guðrún Þóra Guðmannsdóttir skráði]. Örnefnastofnun Íslands.

Kristján Jóhannsson. (e.d.). Örnefni í Hrauntúnslandi og afrétti Þingvallahrauns [Óbirt efni]. Örnefnastofnun Íslands/Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

Matthías Þórðarson. (1945). Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni. Alþingissögunefnd.

Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.

Sturlunga saga (1. bindi). (1988). Örnólfur Thorsson ritstýrði. Svart á hvítu.

Sveinn Pálsson. (1983). Ferðabók Sveins Pálssonar. Dagbækur og ritgerðir 1791–1797. Jón Eyþórsson, Pálmi Hannesson og Steindór Steindórsson íslenskuðu. (2. útg., 1. bindi). Örn og Örlygur.

Tengd örnefni