Skógarhólar (Ármannsfell)

Google Maps
Ornefni Atlas Skogarholar 092F

Skógarhólar

Skógarhólar (stundum ritaðir Skógarhálsar) eru kjarri vaxnir ásar við rætur Ármannsfells milli Biskupsbrekkna og Fjárhúsamúla. Skógarhólar eru mótaðir af mörgum gildrögum úr fellinu (hið stærsta kallast Ármannsgil) sem hafa með framburði sínum skapað grösuga velli neðan hólanna. Þar er skilarétt Þingvalla, reist 1925, sem og eyðibýlið Múlakot sem byggt var í skamman tíma á 17. öld.

Á Skógarhólum er aðstaða fyrir hestafólk sem rekin er af Landssambandi hestamanna í samkomulagi við þjóðgarðinn á Þingvöllum. Landsmót hestamanna hafa fjórum sinnum verið haldið á Skógarhólum, fyrst árið 1958. Þá voru grasflatirnar sléttaðar og stór skeiðvöllur reistur. Landsmót voru aftur haldin á Skógarhólum 1962, 1970 og 1978.

Annað örnefni með sama nafni má finna vestan Skógarkots.

Skógarhólar

Horft inn að Skógarhólum sumarið 2013. Ármannsfell hægra megin á myndinni. Hólarnir sjálfir eru þaktir birki.

Skógarhólar í frumheimildum

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir svo í riti sínu Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni, 1945, bls. 88:

Vestan-við Fjárhúsamúla, upp af Múlakoti, heita Skógarhálsar, og enn vestar Byskupsbrekkur.“

Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Svartagilsland sem rituð var í kringum 1980–1985:

„Í suður frá [Botnsdal] er all hár háls, sem gengur úr Ármannsfelli (3) og breikkar þegar vestar dregur. Í honum miðjum er dalur, Leirdalur (4), vel gróinn og oft sleginn. Sunnan við hálsinn er nokkuð breitt gil, Ármannsgil. Framan við það eru birki klæddir hólar Skógarhólar (5). Austan við þá er háls úr fjallinu, Fjárhúsmúli (6), og neðst við múlann eru tættur frá fjárhúsum og einhverri mannabyggð, Múlakot (7).“

Kristján segir þá í örnefnaskrá sinni um Hrauntúnsland og afrétti Þingvallahrauns sem rituð var í kringum 1980–1985:

„Vestan undir múlanum eru húsatættur sem hét Múlakot (15). Þar fyrir vestan er slétt svæði árunnið úr fjallinu notað sem keppnissvæði hestamanna. Austan við svæðið er all stór klettahóll og vestan við hann voru byggðar safnréttir í staðinn fyrir réttina við Sleðás. 1924. Í norðaustur frá réttinni eru skógivaxnir hólar á allbreiðu svæði, Skógarhólar (16) og upp af þeim í fjallinu sést allbreitt gil Ármannsgil (17).“

Þorsteinn Bjarnason frá Háholti segir svo í ódagsettri örnefnaskrá sinni um afrétt Þingvallasveitar:

„Vestan við gilið er Básöxl (8), þar var býli áður fyrr, er hét Múlastaðir (9). Vestan við Básöxl eru Skógarhólar (10), upp frá þeim er Ármannsbrekka (11) og Ármannsgil (12).“

Guðmann Ólafsson, bóndi á Skálabrekku, segir svo í athugasemdum sínum við örnefnaskrá Þorsteins Bjarnasonar árið 1982:

„Skógarhólar (10) eru hraunhólar, birki vaxnir. Hjá þeim er nú rétt og skeiðvöllur.“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í Þingvallaþönkum sem hann ritaði í kringum 1980–1985:

„Munnmæli herma, að oft hafi sézt ljós í hlíðinni fyrir ofan Skógarhóla og óvenju bjartar stjörnur skinu yfir Ármannsfelli.“

Pétur merkti Skógarhóla inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.

Heimildir

Tengd örnefni