Smjörbrekkuháls
Smjörbrekkuháls er lágur háls sem tengir saman Ármannsfell og Lágafell. Hann er kenndur við Smjörbrekku þar sem núverandi akvegur kemur niður að Sandkluftavatni.
Smjörbrekkuháls í frumheimildum
Ónefndur heimildarmaður segir svo í ódagsettri örnefnaskrá Svartagils:
„Norður af Meyjarsæti (35) er Smjörbrekkuháls (36), og Smjörbrekka (37) þar sem ekið er niður á sandana.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í Þingvallaþönkum sem hann ritaði í kringum 1980–1985, bls. 19–20:
„Örnefni eru oft trúverðugri og gamlar sagnir en ætla mætti við fyrstu sýn. Hverjum dytti í hug í dag að nefna fellið Kvikfjárindisfell, eins og það lítur út nú? Eða hálsinn sunnan við Sandkluftavatn, sem tengir saman Ármannsfell og Lágafell og heitir Smjörbrekkuháls, því nafni? Ég sé enga ástæðu til þess að rengja þær frásagnir og munnmæli, sem herma frá byggð til forna á þessu svæði. Landið hefur verið gjörólíkt því sem nú er.“
Pétur merkti Smjörbrekkuháls inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.