Svartagil
Svartagil er stórt gil í suðvestanverðu Ármannsfelli þar sem það rennur saman við Gagnheiði. Svartagil er um 2,5 kílómetrar á lengd og teygir sig langt inn í fellið norðan Stórhóls. Leysingafarvegur liggur eftir gilinu og finna má vatnsuppsprettu við gilsmynnið.
Eyðibýli nokkuð er kennt við gilið og stendur það framan við gilið. Austan við Svartagil er annað gil sem nefnist Klömbrugil.
Svartagil í frumheimildum
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Hrauntúnsland og afrétti Þingvallahrauns sem rituð var í kringum 1980–1985:
„Þar norðan við er breiður ás og nokkuð langur, Biskupsbrekkur (18), ofan í þeim miðjum er flöt uppgróin og slétt Leirdalur (19). Norður frá brekkunum er langur en mjór dalur Botnadalur (20). Upp af honum í fjallinu er all breiður hvammur sem heitir Skál (21). Norðan við skálina kemur mjór háls sem er undanfari gils sem heitir Svartagil (22).“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Svartagil inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.