Tæpistígur
Tæpistígur er rimi á afgjá nokkurri í Almannagjár-misgenginu, milli Snókagjár og Hvannagjár, þar sem hægt er að komast af efri gjábarminum niður á þann lægri. Nú liggur Þingvallavegur (36) um Tæpastíg niður á Leirar.
Annan stíg með sama nafni má finna á Skötugjá í Þingvallatúni.
Tæpistígur í frumheimildum
Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni segir svo í grein sinni Örnefni í Þingvallahrauni í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1937–1939:
„Fyrir norðan [Snóku] rennur Leiralækur (298); litlu norðar er Tæpistígur (299) á Almannagjá; fyrir norðan hann heitir gjáin Hvannagjá (300); á henni er Leynistígur (301), þar, sem vegurinn liggur yfir hana; svo hverfur hún undir Armannsfell vestast í Bolabás.“
Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir svo í riti sínu Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni, 1945, bls. 75:
„Efst er nokkru breiðari spilda á milli aðalgjárinnar, sem heitir þar Hvannagjá, og hliðargjánna, sem halda beinni framhaldsstefnu. Þar er stígur innan-við Hvannagjá, sem heitir Leynistígur, og annar framan-við, er kallast Tæpistígur.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í sveitarlýsingu Gunnars Þórissonar um Þingvallasveit í Sunnlenskum byggðum III, 1983, bls. 193:
„Árin 1960–1967 var vegur lagður fyrir ofan Almannagjá yfir gjána á Tæpastíg og niður á Leira. Jafnframt var brú byggð á Öxará og Almannagjá lokað fyrir allri bílaumferð.“
Pétur merkti Tæpastíg inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við norðurtögl Snókagjár, þar sem Leiralækurinn rennur úr Hvannagjá (64.27895,-21.0955).
Heimildir
Gunnar Þórisson & Pétur J. Jóhannsson. (1983). Þingvallasveit, sveitarlýsing. Í Sunnlenskar byggðir III (bls. 171–216). Búnaðarsamband Suðurlands.
Matthías Þórðarson. (1945). Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni. Alþingissögunefnd.
Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.