Þingvallarétt
Þingvallarétt er gömul skilarétt Þingvallasveitar við Skógarhóla, sunnan Ármannsfells. Hún var reist 1925 og leysti Bolaklifsrétt og Bakkarétt af hólmi. Hún er rétt ofan Uxahryggjavegar og skammt norðan afleggjarans inn að Svartagili.
Þingvallarétt er reist suðvestan í lágum klapparhól sem er sundurskorinn af gjásprungum. Réttin er hlaðin úr hraungrýti og skiptist í sex dilka. Tengjast þeir aflöngum almenningi sem snýr frá norðri til suðurs og norðan hans er stórt safnhólf. Við réttina að austanverðu er aðstöðuhús sem rekið er af Landssambandi hestamanna.
Þingvallarétt í frumheimildum
Gunnar Þórisson frá Fellsenda og Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti segja svo í sveitarlýsingu Þingvallasveitar í Sunnlenskum byggðum III, 1983, bls. 205–206:
„Árið 1925 var gerð rétt í Skógarhólum, teiknuð af séra Guðmundi Einarssyni á Þingvöllum. Sveinbjörn Einarsson á Heiðarbæ I og Ámundi Kristjánsson í Mjóanesi hlóðu gerðið ásamt fleiri mönnum.
Meðan engar hömlur voru á samgangi sauðfjár var oft margt fé í Þingvallarétt, einkum úr Grímsnesi. Einnig var þó nokkuð af fé úr Borgarfirði, Kjós og vestan yfir Heiði.
Á mæðuveikiárunum er hafinn sundurdráttur á Heiðarbæ og er enn. Eftir uppsetningu varnargirðinganna varð gjörbreyting á. Og nú er mjög fátt fé í Þingvallarétt. Austan varnarlínu er réttað í Gjábakkarétt.“
Pétur J. Jóhannsson merkti Þingvallarétt inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Hrauntúnsland og afrétti Þingvallahrauns sem rituð var í kringum 1980–1985:
„Vestan undir múlanum eru húsatættur sem hét Múlakot (15). Þar fyrir vestan er slétt svæði árunnið úr fjallinu notað sem keppnissvæði hestamanna. Austan við svæðið er all stór klettahóll og vestan við hann voru byggðar safnréttir í staðinn fyrir réttina við Sleðás. 1924. Í norðaustur frá réttinni eru skógivaxnir hólar á allbreiðu svæði, Skógarhólar (16) og upp af þeim í fjallinu sést allbreitt gil Ármannsgil (17).“
Heimildir
Gunnar Þórisson & Pétur J. Jóhannsson. (1983). Þingvallasveit, sveitarlýsing. Í Sunnlenskar byggðir III (bls. 171–216). Búnaðarsamband Suðurlands.
Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.