Drekkingarhylur

Drekkingarhylur
Drekkingarhylur á fallegum sumardegi.

Drekkingarhylur er hylur í Öxará þar sem áin svo rennur í flúðum úr Almannagjá. Hér var konum sem fundnar höfðu verið sekar um hórdóm, valda nýfæddu barni sínu dauða og meinsæri drekkt. Var þá dæmt eftir lögum um Stóradóm sem lögfestur var 1564. Þó var ekki farið að framkvæma eftir dómnum fyrr en 1590. 

Þórdísi Halldórsdóttur var fyrst kvenna drekkt á Öxarárþingi 1618 og hafði hún verið fundin sek um meinsæri. Síðust til að hljóta þessi sviplegu örlög var Guðríður Vigfúsdóttir árið 1749. Var hún ásamt mági sínum Bjarna Jónssyni fundin sek um blóðskömm. Alls var um 18 konum drekkt á Þingvöllum. 

Drekkingarhylur geymir harmþrungna sögu refsinga á Þingvöllum. 

Drekkingarhylur 1905

Margt hefur breyst í umhverfi Drekkingarhyls frá fyrri tíð. Fyrst var sett trébrú yfir Öxará í Almannagjá 1897. Þá var sett steinbrú 1911 og hún svo löguð til 1944. Talsvert rask varð í kjölfarið á hylnum með grjóthleðslu í og við hylinn.