Hrafnagjá

Google Maps

Hrafnagjá er ein stærsta gjáin á Þingvöllum og markar eystri hluta Þingvallasigdalsins ásamt Hlíðargjá, Gildruholtsgjá og Heiðargjá. Hrafnagjá er um 4,5 kílómetra löng og hefst við norðurrætur Arnarfells. Gjáin verður að slitróttum gjásprungum við Svínhóla og kallast þar Hrafnagjárendi, en norðan Svínhóla kemur hún aftur í ljós og kallast þá Gapahæðagjá. Mest er hún um 65 metra breið og 35 metra djúp. Ólíkt Almannagjá er botn Hrafnagjár stórgrýttur og ófær yfirferðar.

Hrafnagjá hefur alla tíð verið farartálmi og er aðeins gangfært yfir hana á fáeinum stöðum þar sem hún hliðrast, þá helst á Hallstíg, Gjábakkastíg og Klukkustíg sem helstu þjóðleiðir lágu um. Fáeinir aðrir stígar voru notaðir innansveitar; um Veiðistíg vestan Gjábakka og um Selsstíg hjá Sigurðarseli.

Hrafnagjá er siggengi og er vestari gjábarmur hennar lægri. Milli Hallstígs og Gjábakkastígs kallast hann einfaldlega Hallur, en þaðan norður að Klukkustígs kallast hann Rif. Norðan Klukkustígs kallast gjárhallinn Sigurðarselsbrekka eða einfaldlega Sigurðarsel eftir samnefndu seli við gjárbarminn, sem verður að lokum jafnhár hinum eystri við Selsstíg.