Hrauntún

Google Maps

Hrauntún er eyðibýli í Þingvallahrauni. Samkvæmt munnmælum var þar byggð að fornu fari sem aflagðist í plágunni miklu og var þar síðan selstaða frá Þingvallabæ.

Hrauntún er tæpum tveimur kílómetrum sunnan Sleðaáss. Hraunið norðan þess kallast Lambagjárhraun, vestan Hrauntúns er þykkt birkikjarr sem kallast Þrívarðnaskógur.

Leiðir liggja í allar áttir úr Hrauntúni, en aðeins þremur þeirra er viðhaldið í dag. Úr suðri liggur Hrauntúnsgata að Skógarkoti og ögn vestar liggur Nýja-Hrauntúnsgata frá Skógarkoti, um vesturenda Hrauntúns og liggur svo norður í átt að Ármannsfelli. Úr suðvestri liggur Leiragata niður að Leirum, þar sem Hrauntúnsbændur þvoðu þvott og ull. Úr suðaustri liggur Gaphæðaslóði í átt að fjárhellinum Gapa og sést hann enn greinilega, þó honum sé ekki haldið við. Úr austri liggja misgreinilegir slóðar í átt að Gamla-Stekk og Prestastíg og úr norðaustri er getið um Víðivallagötu, sem Hrauntúnsbændur fóru í slægjum á Hofmannaflöt og Biskupsflöt. Að lokum lá leið úr vestri um Jónsstíg í átt að Biskupsbrekkum.