Kristnitaka

Kristnitaka

Frá upphafi landnámsaldar var heiðinn siður viðtekinn á Íslandi þótt sumir landnámsmanna hafi verið kristinnar trúar. Íbúar landsins dýrkuðu hin fornu goð með blótum. Á sama tíma fór útbreiðsla kristinnar trúar í nágrannalöndunum vaxandi.

Fyrir árið 1000 var kristniboð reynt með misjöfnum árangri á Íslandi þar sem heiðinn siður var enn fastur í sessi. Sumarið 1000 dró til tíðinda á Alþingi á Þingvöllum.   Upplausn var yfirvofandi í hinu unga samfélagi þar sem þingheimur hafði skipst í tvær fylkingar heiðinna manna og kristinna. Fylkingarnar höfðu hvor sinn lögsögumann og sögðu sig úr lögum hvor við aðra. Lögsögumennirnir tveir sammæltust um að Þorgeir ljósvetningagoði lögsögumaður heiðinna skyldi ákveða hvaða trú Íslendingar allir skyldu taka.   Þorgeir lagðist undir feld og hafðist þar við nóttina og næsta dag.  Eftir það gekk hann að Lögbergi og kvað upp þann úrskurð að Íslendingar skyldu taka kristna trú en heiðnir fengju áfram að stunda sína trú þótt leynt skyldi fara.

Ræða Þorgeirs ljósvetningagoða markaði þáttaskil á Íslandi en með henni hóf kristin trú innreið sína í íslenskt samfélag án vopnaskaks og blóðsúthellinga.  Með kristni áttu erlendir menningarstraumar greiðari leið til landsins og bókmenning hófst með kennslu í lestri og skrift.

Stafkirkja

Teikning á stafkirkju úr sýningunni Hjarta lands og þjóðar.

Fyrsta kirkjan á Þingvöllum var reist fljótlega eftir kristnitöku.  Snorri Sturluson segir í Heimskringlu að Ólafur Haraldsson Noregskonungur, sem komst til valda árið 1015, hafi sent kirkjuvið til Íslands og var þá reist kirkja á Þingvöllum. Alla tíð frá því kirkja Ólafs konungs var reist hefur staðið þar kirkja.  Samkvæmt Grágás, lagasafni þjóðveldistímans, mátti lögsaga fara fram í kirkjunni ef illa viðraði. Alþingi var sett með guðsþjónustu og sá siður hefur haldist síðan. Prestastefnur fóru fram í kirkjunni meðan Alþingi var á Þingvöllum, til 1798.

Sú kirkja, sem nú stendur á Þingvöllum, var vígð árið 1859 en 1907 var turn hennar endurbyggður og honum breytt frá fyrra horfi. Í turninum eru þrjár klukkur, ein forn, önnur gefin kirkjunni af Jóni Vídalín biskup á vígsluári hans 1698 og sú þriðja er "Íslandsklukkan" frá 1944. Kirkjan á ágæta gripi, m.a. predikunarstól frá 1683 og altaristöflu málaða af Ófeigi Jónssyni bónda á Heiðarbæ árið 1834. Aðra altaristöflu eftir danska málarann Anker Lund eignaðist kirkjan 1896 og prýða þær báðar kirkjuna. Skírnarfontur kirkjunnar frá 1962 er hannaður af Guðmanni Ólafssyni, bónda á Skálabrekku

Þingvallakirkja

Núverandi Þingvallakirkja var reist 1859