Landnám

Landnám

Upphaf Víkingaaldar er að jafnaði miðað við árás víkinga á munkaklaustur við Lindisfarne árið 793 og ljúka 1066 við sigur Vihjálms Sigursæla yfir Englandi. Einkennandi fyrir þennan tíma er að þá tók norrænt fólk sér bólfestu allt frá Volgubökkum til austurstranda Norður-Ameríku og frá Miðjarðarhafi til Norður-Íshafs.

Landnám Íslands var einn þáttur í þessum miklu og víðtæku þjóðflutningum. Landþrengsli og innanlandsátök í Noregi voru þættir sem leiddu til að margir tóku sig upp og lögðu út á hafið til Íslands. Þótt erfitt sé að fullyrða um hvenær landám nákvæmlega hófst er oft miðað við frásögn Ara fróða í Íslendingabók en samkvæmt henni námu Ingólfur Arnarson og Hallveig Fróðadóttir land í Reykjavík um 870.

Fólk kom hvaðanæva að.

Landnemar komu frá Skandinavíu og svæðum við norðan og vestanvert Bretland.

Margir fylgdu í kjölfar Ingólfs og sáu Ísland fyrir sér sem land nýrra tækifæra. Íbúum fjölgaði jafnt og þétt og að sama skapi jókst þörf á lögum og þar með einhverjum tilteknum stað þar sem fólk gat komið saman, sett niður deilur og sammælst um tilteknar reglur sem hafa bæri í heiðri. Nokkru eftir landnám voru allavega tvö héraðsþing stofnuð á Íslandi, annað kennt við Þórsnes við Stykkishólm, hitt við Kjalarnes. Síðar voru fleiri héraðsþing stofnuð víðsvegar um landið.

Skömmu eftir árið 900 var farið að huga að þeim möguleika að stofna eitt allsherjarþing - Alþingi - á Íslandi. Nokkru fyrir árið 930 komu höfðingjar sér saman um að senda mann, Úlfljót að nafni, til Gulaþings í Noregi. Erindi hans var að kynna sér lög og venjur sem hafa mætti að fyrirmynd í hinu nýja þjóðfélagi. Hann sneri aftur til Íslands og við hann eru kennd fyrstu lögin sem sögð voru upp á Alþingi - Úlfljótslög. 

Fóstbróðir Úlfljóts, Grímur geitskör, fór um Ísland til að afla fylgis við stofnun Alþingis sem og að finna hentugan þingstað. Niðurstaðan varð sú að þingið yrði í Bláskógum og sumarið 930 kom fólk fyrst saman, þar sem nú heita Þingvellir, til að taka þátt í fyrsta Alþingi Íslendinga. Er það talið marka upphaf þjóðríkis á Íslandi.  Nokkrar  ástæður eru taldar líklegastar fyrir vali þingstaðarins á Þingvöllum. 

Í landnámi Ingólfs Arnarsonar hafði verið stofnað þing á Kjalarnesi. Ættingjar hans voru valdamiklir og talið er að áhrifa þeirra hafi gætt við staðarval Alþingis. Á þjóðveldisöld lágu Þingvellir vel við helstu leiðum og þéttbýlustu svæðum á Íslandi og því auðvelt fyrir flesta að sækja þingið.

Lögberg

Hverjum frjálsum manni stóð til boða að flytja mál sitt á Lögbergi.

Aðstæður á Þingvöllum þóttu einnig heppilegar fyrir þing; góðir hagar, eldiviður og vatn. Þá þótti staðurinn henta vel fyrir sjálft þinghaldið sem slíkt þar sem brekka og sléttur völlur lágu upp að hamravegg.  Einnig er nefnd frásögn í Íslendingabók Ara fróða af Þóri kroppinskegg sem átti land í Bláskógum. Hann myrti þræl sinn en í refsingarskyni var allt land hans gert að allsherjareign til afnota fyrir þingið.