Stórhátíðir
Frá því að Alþingi var lagt niður á Þingvöllum 1798 hafa Íslendingar haldið sex miklar hátíðir á Þingvöllum. Árið 1874 var þjóðhátíð haldin á Þingvöllum til að fagna 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar. Af því tilefni afhenti Kristján IX. Íslendingum fyrstu stjórnarskrána en samkvæmt henni fékk Alþingi takmarkað löggjafararvald og fjárforræði. Íslendingar fjölmenntu til Þingvalla til að verða vitni að atburði sem markaði þáttaskil í sjálfstæðisbaráttunni.
Alþingishátíðin 1930
Sumarið 1930 var haldin stórhátíð á Þingvöllum til að minnast þess að 1000 ár væru liðin frá stofnun Alþingis. Alþingshátíðin var fyrsta allsherjarhátíð Íslendinga þar sem um verulega þátttöku landsmanna var að ræða en talið er að um 30-40.000 manns hafi sótt hátíðina. Þótti hún takast mjög vel og vera gestum og aðstandendum til mikils sóma.
Stofnun lýðveldis 1944
Stofnun lýðveldis á Íslandi fór fram á Þingvöllum á fæðingardegi Jóns Sigurðssonar forseta, 17.júní 1944. Mikill mannfjöldi var saman kominn á Völlunum við Öxará þrátt fyrir rigningu og rok lengi dags. Gestir létu þó ekki rigninguna á sig fá enda dagurinn einn sá mikilvægasti í sögu Íslands. Á Lögbergi fór fram forsetakjör þar sem Sveinn Björnsson ríkisstjóri var kjörinn forseti. Að lokinni dagskrá að Lögbergi var fyrsti ríkisráðsfundur lýðveldisins haldinn þar sem forseti staðfesti m.a. lög um þjóðfána og skjaldarmerki.
1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974.
Árið 1974 var ellefu hundruð ára afmælis Íslandsbyggðar fagnað á Þingvöllum. Sólin skein glatt á gesti sem fjölmenntu á Þingvöll og tóku þátt í fyrstu hátíð sem var sjónvarpað beint til allra landsmanna.
Hálfrar aldar afmæli lýðveldisins Íslands 1994.
Þann 17. júní árið 1994 var minnst hálfrar aldar afmælis lýðveldis á Íslandi á Þingvöllum. Tugir þúsunda Íslendinga fögnuðu þessum tímamótum og fjöldi boðsgesta kom erlendis frá. Undirbúningur dagskrárliða var mikill og vandaður. Konur sem skörtuðu íslenska þjóðbúningnum og kórsöngur eitt þúsund barna á hátíðarsviðinu voru meðal þess sem glöddu augu og eyru gesta þennan hátíðardag.
Kristnihátíðin 2000.
Vorið 1999 var sett kristnihátíð á Íslandi sem markaði röð atburða um land allt sem minntust kristnitökunnar árið 1000. Hápunktur hátíðarhaldanna var tveggja daga hátíð á Þingvöllum í byrjun júlí sumarið 2000 þar sem þúsundir Íslendinga komu og tóku þátt í margvíslegri dagskrá og helgihaldi.