Tákn sjálfstæðis

Tákn sjálfstæðis

Þingvellir urðu að þýðingarmiklu sameiningartákni í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. og 20. öld. Sumarið 1798 var síðasta þingið haldið á Þingvöllum. Eftir að þingið var lagt af voru Þingvellir hljóður staður, utan alfaraleiðar um nokkurn tíma. Þegar svo straumar sjálfstæðisvakningar í Evrópu náðu til Íslendinga í upphafi 19. aldar voru saga og náttúra Þingvalla vakin til lífsins. Þingvellir fengu lifandi hlutverk í þjóðlífinu sem tákn um sjálfstæði.

Stjórnarskrá til Íslands 1874

Teikning af afhendingu, Kristjáns IX danakonungs, stjórnarskrá fyrir Ísland 1874.

Hið forna þing var ofarlega í hugum fólks og fornhetjunar voru vaktar til lífsins í kvæðum og
ljóðum. Þjóðernisvakningin varð til þess að umræða um staðsetningu Alþingis var mikil. Skiptar skoðanir voru um hvar það skyldi staðsett en strax komu upp raddir um að Alþingi skyldi vera á Þingvöllum.

Árið 1843 gaf Kristján konungur VIII út konungsúrskurð um stofnun þings á Íslandi sem nefnast skyldi Alþingi og kom það fyrst saman 1. júlí 1845 í Latínuskólanum í Reykjavík.  Alþingi var einungis ráðgjafarþing en hafði ekki löggjafarvald. Árið 1848 var fyrsti Þingvallafundurinn haldinn og sóttu hann 19 fulltrúar sem settu saman bænaskrá til konungs þar sem þeir beiddust þess að konungur veitti Íslendingum þjóðþing með sömu réttindi danskir þegnar nutu.

Þingvallafundir voru haldnir óreglulega allt til ársins 1907. Á þeim var stjórnmálabaráttan í
landinu skipulögð og málin búin í hendur þeim sem báru þau fram á Alþingi og fyrir stjórnvöld.

Vegna Þingvallafundana og sjálfstæðisbaráttunnar festust Þingvellir í sessi á ný sem helsti samkomustaður þjóðarinnar - þar koma Íslendingar saman til að fagna stærstu og mikilvægustu atburðum í sögu þjóðarinnar.