Þinghelgin

Þinghelgin

Þingið eða þinghelgin er það svæði kallað sem Lögberg og Lögrétta voru á og störf Alþingis fóru fram þann tíma sem þingið var háð á Þingvöllum. Þinghelgin er talin hafa afmarkast af Köstulum, tveimur hraunhólum nyrst á Neðri-Völlum til norðurs, Þingvallavatni til suðurs, hærri vegg Almannagjár til vesturs og Flosagjá og gjánum þar suður af til austurs. Innan þessara marka skyldu allir menn hafa grið og eiga frjálsa aðild að því sem fram fór. Flosagjá er ein af megingjám Þingvalla með tæru vatni allt að 25 m djúpu.

Kastalar

Hraunhólarnir Kastalar mörkuðu niðri mörk þinghelgarinnar

Á móts við þingið klofnar gjáin á löngum kafla og nefnist eystri kvíslin Nikulásargjá. Yfir hana var lögð brú 1907. Eftir það tóku ferðamenn að kasta smápeningum í vatnið fyrir neðan og smám saman var farið að kalla þann gjárhluta Peningagjá. Ekki er nein þjóðsaga tengd við Peningagjá en líta má á myntina í helköldu vatninu sem tákn um þá miklu auðlind sem vatnið er. Spöngin heitir langur hraunrimi á milli kvíslanna. Þar töldu menn á 18. og fram eftir 19. öld að Lögberg hefði staðið fyrst eftir að Alþingi var stofnað. Hefur stundum verið talað um Heiðna-Lögberg eða Gamla-Lögberg á Spönginni.

Skötutjörn og Skötugjá eru framhald Flosagjár en Seiglugjá, Túngjá og Fjósagjá eru suður af Nikulásargjá. Silfra er litlu austar, að mestu sokkin í vatn. Um þessar gjár og víðar undan hrauninu rennur mesti hluti vatnsins sem myndar Þingvallavatn.

Syðra búðasvæði

Horft til suðurs yfir búðasvæðið suður af Lögbergi.

Öxará hefur mótað umgjörð þingsins frá upphafi. Í Haukdælaþætti Sturlungu segir að ánni hafi verið veitt í Almannagjá til þess að þingheimur hefði greiðan aðgang að vatni. Síðan þá hefur Öxará haft mikil áhrif á ásýnd þingstaðarins með framburði og flóðum. Í Öxarhólma háðu menn einvígi á 10. öld eða þar til hólmgöngur voru af teknar nokkru eftir kristnitöku. Öxará kemur víða við sögu í heimildum frá tímum þinghaldsins. Vatnagangar árinnar ásamt landsigi varð m.a til þess að Lögrétta var færð úr stað.

Uppgrónar tóftir búða, sem áður hýstu þingmenn og aðra þá er sóttu þingið, má víða sjá í þinghelginni. Aðeins eru þó greinanlegar tvær rústir sem talið er að séu frá þjóðveldisöld. Önnur er nefnd Njálsbúð, óglögg rúst á vestari bakka Öxará gegnt Þingvallabæ. Hin er Biskupabúð, stærsta búðar-rústin á Þingvöllum í túninu vestan við heimreiðina, fyrir framan kirkju.  Aðrar eru frá 17. og 18. öld en að líkindum byggðar á rústum eldri búða.

Þingvallakirkja og Þingvallabær

Núverandi kirkja er reist 1859 en Þingvallabærinn 1930. 

Þingvallabærinn sem teiknaður var af Guðjóni Samúelssyni, var reistur fyrir alþingishátíðina 1930. Upphaflega var bærinn undir þremur burstum en tveimur var bætt við 1974. Bærinn er opinber sumardvalarstaður forsætisráðherra auk þess sem hann er nýttur í þágu þjóðgarðsins.  Fyrir austan Þingvallakirkju er þjóðargrafreiturinn, hringlaga mannvirki úr hraungrýti, sem var hlaðinn árið 1939. Þar hvíla skáldin Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson.

Vestan við Öxará undir Hallinum stóð Hótel Valhöll sem var fyrst reist á Völlunum nærri Köstulum árið 1898. Veturinn 1928-1929 var húsið hlutað sundur og dregið á sleðum vestur yfir Öxará.  Þann 10.júlí 2009 kom upp eldur í hótelinu og hótelið brann til grunna.  Grasflöt er nú þar sem hótelið stóð en ekki hefur verið ákveðið hvernig  framtíðarnýtingu reitsins verður háttað.

Konungshúsið svokallaða var byggt á Efri-Völlum 1907 er von var á Friðriki konungi VIII í heimsókn til Íslands. Fyrir hátíðarhöldin 1930 var húsið flutt og sett niður undir Hallinum sunnan við Valhöll. Það  var sumardvalarstaður forsætisráðherra um árabil en brann 10. júlí 1970. Þar létust forsætisráðherrahjónin Bjarni Benediktsson og Sigríður Björnsdóttir, ásamt dóttursyni þeirra, Benedikt Vilmundarsyni. Á lóðinni stendur nú minnisvarði sem íslenska þjóðin reisti þeim.