Haustlitaganga - Klukkustígur

Haustlitir fagrir

Rauðir og gulir litir leika um Þingvelli þessi dægrin.

Nú hafa haustlitirnir náð hámarki í þjóðgarðinum á Þingvöllum og því er efnt til sérstakrar haustlitagöngu inn í Þingvallahraun laugardaginn 28. september klukkan 13:00.

Gunnar Grímsson fornleifafræðingur og landvörður leiðir gesti um svonefnda Klukkustígsleið, sem er talin ein elsta þjóðleið til Þingvalla. Þessi forna leið hefur að mestu fallið úr minni fólks á síðustu áratugum – og var nær horfin undir lyng og kjarrgróður – en hefur nú verið stikuð og gerð aðgengileg á nýjan leik.

Gönguferðin hefst við Vallakrók, skammt austan við Öxarárfoss. Gengið er að eyðibýlinu Skógarkoti og þaðan farið um gamla stekkjargötu austur að fornbýlinu Þórhallsstöðum, þar sem Þórhallur ölkofri er sagður hafa búið.

Þaðan er gengið eftir hinni fornu þjóðleið að Klukkustíg, þar sem núverandi akvegur liggur yfir Hrafnagjá. Frá Klukkustíg er svo gengið eftir fláanum á neðri barmi Hrafnagjár – er nefnist Rif – inn að svonefndum Landsbankareit og loks staðnæmst við Vellankötlu. Rætt verður um sögu Þingvalla út frá gleymdum gönguleiðum og ævafornum mannvirkjum sem víða leynast í skóginum.

Gangan er um 6,5 km að lengd og tekur um 3 klst. Gangan er tiltölulega auðveld yfirferðar og hallalítil, en fer þó um ójafnt og þýft landslag á köflum.

Best er að mæta vel skóaður og með nesti og vatn, enda er Þingvallahraun nær vatnslaust. Hægt verður að selflytja fólk frá Vellankötlu aftur að upphafsreit en áhugasamt göngufólk getur þar gengið Skógarkotsveg til baka og myndað þannig ágætis hringferð.

Klukkustígur

Hér má sjá kort af Klukkustígsleiðinni sem verður farinn. Byrjað verður við Vallakrók en endað við Vellankötlu.

Leiðakort

Skrásetning Klukkustígsleiðarinnar er hluti af enn stærra átaki sem nær yfir 165 ferkílómetra svæði. Flestallar leiðir á þessu tiltekna svæði - sem sýnt er á myndinni - hafa nú verið teiknaðar skipulega út frá loftmyndum í hárri upplausn. Enginn stigsmunur er gerður á fjölförnum leiðum eða kindagötum, allir slóðar og troðningar sem greinast á loftmyndum eru teiknaðir upp. Út frá þessu kemur ágætis leiðakort þar sem hægt er að átta sig á ferðum fólk og fjár um landið. Þar á meðal leynast útlínur fjölfarinna leiða sem getið er í ritheimildum, líkt og Klukkustígsleiðin.

Nærmyndakort

Í kjölfarið hafa fjölmörg svæði innan þjóðgarðsins verið kortlögð með flygildum og unnin í háupplausnarloftmyndir og hæðalíkön, þar sem nær allar hæðabreytingar eru dregnar fram. Þar hefur verið hægt að skrásetja leiðir og slóða með enn meiri nákvæmni. Kortlagningin á Klukkustígsleiðinni sýnir þannig að leiðin hefur legið eftir tveimur meginstraumum og eru þeir sýndir á þessari mynd. Stikaða leiðin er merkt með heilli línu en hin leiðin með brotalínu.