Heill heimur af börnum - börn setja mark sitt á Íslandskortið

Heill heimur af börnum - börn setja mark sitt á Íslandskortið

Í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi hefur verið efnt til verkefnisins „Heill heimur af börnum – börn setja mark sitt á Íslandskortið“. Börn á Íslandi miðla á skapandi hátt á nýju gagnvirku Íslandskorti því sem þeim finnst mikilvægt og áhrifaríkt í lífi sínu og umhverfi. 

Heill heimur af börnum - börnin setja mark sitt á Íslandskortið

Laugardaginn 15. júní kl. 13.00, í gestastofu þjóðgarðsins á Haki, verður Íslandskortið afhjúpað af Ásmundi Einar Daðasyni mennta- og barnamálaráðherra, en afhjúpunin er liður í 80 ára lýðveldisdagskrá á  Þingvöllum. Salvör Nordal, umboðsmaður barna mun ennfremur ávarpa samkomuna.

Smiðja - Ef ég væri forseti

Í smiðjunni Ef ég væri forseti geta börn á öllum aldri velt fyrir sér hvernig þau myndu vilja nýta hæfileika sína og styrkleika, tungumál og áhugamál ef þau væru forseti Íslands.  

Þetta verður hægt að gera í smiðjunni: 

* Skrifa og teikna svar við spurningunni “Ef ég væri forseti”.

* Búa til sól sem sýnir hvað það er sem fær mann til að skína, styrkleika manns, það sem er í uppáhaldi og önnur atriði sem skipta máli í lífinu.  

* Skrifa mikilvæg orð og gildi sem skipta máli fyrir lýðræðið og það að búa saman í samfélagi. Orðin geta verið á hvaða tungumáli sem er og munu verða hluti af fallegum tungumálaregnboga.

* Koma með eitthvað sem maður hefur áhuga á að sýna öðrum börnum um sig. Það geta verið gripir sem tengjast lífi og menningu manns, leikföng, myndir eða annað sem skiptir mann máli og fær mann til að skína. 

Undir lokin verður hægt að miðla til annarra því sem mann langar að sýna um sig á Menningarmóti. 

Það sem börnin vilja sýna verður hægt að setja inn á nýtt Íslandskort barnanna í formi myndbands eða ljósmynda svo framlagið verður sýnilegt þegar smellt er á Þingvelli á kortinu. Þannig geta öll börn sem taka þátt mótað Íslandskortið áfram og varpað ljósi á það sem skiptir þau máli.