Gestur fellur í gjá

Gestur sem heimsótti þjóðgarðinn á Þingvöllum í gær lenti í lífsháska þegar hann gekk með bakka Öxarár þar sem áin rennur út í Þingvallavatn. Snjór sem huldi vatnsgjá gaf sig þegar hann gekk þar yfir og við það féll hann niður í hyldjúpa gjánna í helkalt vatnið.

Gjáin er mjög djúp og fór viðkomandi á bólakaf í vatn en lofthiti var um - 18 gráður. Samferðarmaður hans og annar nálægur gestur þjóðgarðsins komu honum til bjargar og náði honum upp úr gjánni holdvotum við illan leik og komust þau í bíl þeirra sem lagt hafði verið spölkorn frá. 

Þeim var báðum mjög brugðið en komust til síns heima köld og holdvot en létu þjóðgarðsstarfsfólk vita þegar þau voru á leið heim til að vekja athygli á þessu.

Ljóst er að hættur skapast alltaf í þjóðgarðinum þegar snjó hefur kyngt niður einsog undanfarin mánuð. Snjór skefur yfir gjár sem eru óteljandi í þjóðgarðinum og því geta slíkar hættur leynst víða.

Af þeim sökum vil þjóðgarðurinn eindregið hvetja gesti til að fara alltaf með ítrustu gát um þjóðgarðinn þegar útivist er stunduð og fara ekki út fyrir stíga og halda sig á sýnilegum slóðum.

Starfsfólk muna skoða aðstæður við þessa gjá og meta aðstæður og hvernig verði brugðist frekar við.

Gjár og snjór

Stundum eru gjár huldar snjó og ber að fara varlega.

Gjá algjörlega hulin

Stundum eru gjár alveg huldar fönn og þarf að hafa allan varan á. 

Gjáin merkt

Gjáin er full af þriggja til fjögurra gráðu köldu vatni.