Öryggisæfing við Silfru

landverðir á öryggisæfingu með sjúkraflutningamanni við Silfru
Allar hendur á brettið

Æft var að koma bretti að við uppstigið í Silfru

Í dag var haldin öryggisæfing við Silfru. Höskuldur Friðriksson sjúkraflutningamaður HSU á Þingvöllum hélt námskeiðið fyrir starfsfólk þjóðgarðsins. Farið var í helstu þætti sem tengist búnaði sem sjúkraflutningamaður hefur meðferðis í bílnum og er til staðar á Silfru. 

landverðir á öryggisæfingu með sjúkraflutningamanni
Hlýtt á Höskuld

Áður en farið var út í snjókomuna fór Höskuldur yfir helstu þætti er varðar þann búnað sem til er.

Silfra hefur verið einkar vinsæll viðkomu- og afþreyingastaður á Þingvöllum í rúman áratug. Gestir koma til að njóta einstakrar náttúru, tærleika vatnsins og ævintýrisins sem því fylgir að svamla í íssköldu vatninu. 

Undanfarin ár hefur þjóðgarðurinn á Þingvöllum verið með samning við HSU um viðveru sjúkraflutningamanns á Þingvöllum. Er það liður í að auka öryggi gesta þjóðgarðsins. Þó alla jafna sé öruggt að kafa og yfirborðskafa í Silfru með góðri leiðsögn að þá er þó athæfið ekki með öllu hættulaust. 

Æfingin er mikilvægur liður í að auka getu starsfsfólks þjóðgarðsins til að takast á við slys þegar þau verða. 

landverðir á öryggisæfingu með sjúkraflutningamanni við Silfru
landverðir á öryggisæfingu með sjúkraflutningamanni við Silfru
Köld æfing?

Vatnið í Silfru er allajafna um 3-4 gráður á Celcius. Það var þó ögn hlýrra en yfirborðshitinn sem var vel undir frostmarki og gekk á með éljum. Starfsfólk dúðaði sig því vel upp. 

Æfingin sem fór fram í dag var haldin fyrst á svipuðum tíma í fyrra. Hún verður svo endurtekin fyrir næstu vakt svo allt starfsfólk sé með svipaða þjálfun. Þá fer að venju fram skyndihjálparnámskeið fyrir starfsfólk þjóðgarðsins í maí. 

Það er að mörgu sem þarf að huga þegar gestakomur teljast einhversstaðar við 1,5 milljónir á ári. Skyndihjálparnámskeið, öryggisæfingar, starfsdagar og yfirferð á búnaði er allt liður í því að tryggja öryggi gesta eins og hægt er.