Öryggisæfing í Silfru

Í gær og fyrradag voru haldnar öryggisæfingar við Silfru með starfsfólki þjóðgarðsins. Höskuldur Friðriksson sjúkraflutningamaður frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem hefur staðið vaktina í þjóðgarðinum undanfarið, leiddi æfinguna.

Æfing í fyrstu hjálp

Starfsfólk æfir hér hjartahnoð, blástur og uppsetningu hjartastuðtækis.

Árlega er haldið skyndihjálparnámskeið fyrir starfsfólk þjóðgarðsins en gott er að fá æfingu sem miðar sérstaklega við slys í Silfru.
Farið var í margt af því sem gæti gerst en svo lögð sérstök áhersla á viðbragðsæfingu við drukknun. Starfsfólk var látið æfa blástur, hnoð og vera viðbúið að vatn kæmi úr hinum slasaða. Athugaður var viðbragðstími við að koma hjartastuðtæki að uppstigi Silfru en í þjóðgarðinum er fjöldi tækja á vel völdum stöðum.
Barkaþrædd dúkka

Sjúkraflutningamaður sýndi barkaþræðingu. Lögð var áhersla á það á æfingunni að starfsfólk héldi áfram fyrstu hjálp þó sjúkraflutningamaður væri "kominn" á staðinn. 

Mikilvægt er að kynnast þeim tækjum og búnaði sem til er sem og að halda björgun áfram eftir að sjúkraflutningamaður er kominn. Fékk starfsfólk að sjá barkaþræðingu á einni dúkkunni og fékk fræðslu um mismunandi aðferðir við að koma súrefni í lungu hins slasaða.
Það skiptir máli að æfa viðbrögðin þó við vonum að ekki þurfi að taka til þeirra.
Sjúkraflutningamaður við Silfru

Höskuldur Friðriksson sjúkraflutningamaður frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands stýrði æfingunni við Silfru. Höskuldur er margreyndur í starfi og þjóðgarðurinn hefur verið heppinn að njóta krafta hans undanfarin ár í eftirliti og viðbrögðum.