Jarðsagan

Jarðsagan

Á seinasta jökulskeiði lá þykkur jökull yfir öllu landinu sem var meira en 1000 metra þykkur þegar kaldast var. Undir jökulskildinum voru eldsumbrot sem mynduðu móberg. Sum þessara eldgosa náðu að bræða sig í gegnum jökulskjöldinn og enduðu í hraunrennsli. Önnur bræddu einungis hvelfingu undir ísnum og mynduðu móbergsfjöll eða langa móbergshryggi.

Fyrir um 18.000 árum hlýnaði, jökulinn tók að leysa og hann hopaði smám saman inn í landið. Fyrsti vísirinn að Þingvallavatni kom fram fyrir 12.000 árum. Þá lá jökultunga í Þingvallalægðinni og jökullón myndaðist syðst í henni, upp við Grafningsfjöllin. Þingvallavatn varð síðan til þegar jökullinn hopaði enn lengra norður og vatn frá honum safnaðist í lægðina. Undan jöklinum komu í ljós mismunandi gerðir móbergsfjalla sem myndast höfðu við eldsumbrot undir ísfarginu.

Fyrir um 10.000 árum er jökullinn hafði nálgast núverandi stöðu, hófust mikil dyngjugos. Þá myndaðist Skjaldbreiður ein fallegasta dyngja landsins.

Um svipað leyti gaus í dyngju sunnan við Hrafnabjörg sem Þingvallahraun rann frá og myndaði eldborgagígaröð.