Gönguvegur

Google Maps
Ornefni Atlas Gonguvegur C2a5

Gönguvegur

Gönguvegur (einnig nefndur Kirkjuvegur eða Göngustígur) er götuslóði milli Þingvalla og Skógarkots. Hann liggur frá brúnni á Flosagjá austur að Háugjá, yfir hana á tveimur stöðum og þaðan um hraunbala og eyður inn að Skógarkoti.

Ábúendur Skógarkots fóru um Gönguveg er þeir sóttu guðsþjónustur í Þingvallakirkju og sinntu öðrum erindum þar á bæ. Nú hefur Gönguvegur gengið í endurnýjun lífdaga sem ein vinsælasta gönguleiðin í Þingvallahrauni.

Leiðarlýsing

Gönguvegur (~2,4 km, 30–45 mínútur) er nokkuð auðveldur yfirferðar, jafnlendur og afar greinilegur en götubotninn er víða grýttur og ójafn. Sýna skal sérstaka aðgætni þegar farið er um gjár og sprungur. Leiðin er stikuð og við hana standa margar gamlar vörður. Þær eru flestar, ef ekki allar, hlaðnar af ábúendum og teljast til aldursfriðaðra fornleifa. Ekki má hrófla við þeim eða hlaða ofan á þær.

Leiðarlýsingin hefst við brúna yfir þann tiltekna hluta Flosagjár sem nú kallast Peningagjá. Áður en fyrsta brúin var reist 1907 hefur hér legið beinast við að þræða eftir mjórri landræmu við eystri barm Seiglugjár og þaðan um Seiglur til Þingvalla. 

Gengið er til austurs frá Peningagjá yfir gamla bifreiðastæðið og eftir aðkeyrslunni upp lága brekku. Á brúninni er beygt til vinstri inn á götuslóðann, þaðan yfir akbrautina, fram hjá hálfhruninni vörðu og inn í Þingvallahraun.

Flosagjá

Horft til norðurs eftir Flosagjá og Spönginni. Brúin yfir Peningagjá fremst á myndinni.

Eftir örfáar mínútur er komið að Háugjá og þar er jafnframt varasamasti hluti leiðarinnar. Gjáin býður upp á tvo staði til yfirferðar. Syðri valkosturinn heitir Brúnstígur og er nú langoftast farinn. Sýna þarf mikla varkárni á honum í bleytu og hálku, því þar er klöngrast yfir hraunspöng á tvíklofnu gjártagli.

Hinn valkosturinn er rétt norðan Brúnstígs og heitir Steinbogi. Þar hefur Háagjá hliðrast til vesturs og myndað mjóan rima milli sprungureina. Gengið er inn eftir honum og yfir eystri sprunguna á öruggum stað sem er mitt á milli tveggja varðna. Síðan er farið meðfram rótum lágrar hraunbrúnar með þremur vörðustæðum ofan á þar til leiðir sameinast á ný.

Brúnstígur og Steinbogi

Samsett loftmynd af Brúnstíg og Steinboga á Háugjá. Áætluð leið um Steinboga er sýnd með hvítri brotalínu.

Ekki líður á löngu þar til farið er yfir aðra gjá sem er þó mun smærri í sniðum. Hún heitir Hellugjá og er samnefnari á sprungusveimi sem skerst í gegnum svonefnda Hellugjárbala. Ákjósanlegustu staðirnir til yfirferðar eru merktir með vörðustubbum á báðum hliðum. 

Hellugjá

Farið yfir Hellugjá á Hellugjárbölum. Gengið er mitt á milli varðnanna.

Héðan er Gönguvegur laus við allar sprungur og liggur um svipmiklar skógareyður. Tvær nafnkenndar vörður – og nokkur vörðuhrúgöld – vísa veginn. Svuntubalavarða er á svonefndum Svuntubala skammt austan Hellugjár; nokkru síðar er farið fram hjá Lýtingsvörðu á Lýtingsvörðubölum.

Þaðan liggur leiðin yfir Helluholt og að suðvesturhorni túngarðsins í Skógarkoti. Þar er komið að krossgötum. Til norðurs liggur Nýja-HrauntúnsgataHrauntúni og frá henni klofnar Krókhólagata til Leira. Gönguvegur sameinast nú Skógarkotsvegi (eða Gjábakkavegi) og eru hér rúmir 100 metrar að bæjartröðunum í Skógarkoti.

Gönguvegur

Horft til austurs að Hrafnabjörgum skömmu áður en komið er að Lýtingsvörðu.

Gönguvegur í frumheimildum

Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni segir svo í grein sinni Örnefni í Þingvallahrauni í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1937–1939:

„Skammt fyrir austan Þingvallastöðul er Háa-gjá (253); yfir hana liggur Gönguvegurinn (254) frá Skógarkoti á svo-nefndum Steinboga (255). Litlu suð-vestar er stígur, sem heitir Brúnstígur (255a). Þar fyrir austan Háu-gjá er Hellugjá (256) og Hellugjárbalar (257), fyrir sunnan Gönguveg. Skammt austur-af þeim liggur Gönguvegur um all-stóran, lágan bala; hann heitir Svuntubali (258). [...] Gönguvegur liggur yfir Helluholt hjá Lýtingsvörðu. Skammt fyrir vestan Skógarkot er dálítil hólaþyrping; eru hólarnir vaxnir þjettum skógi og grasi, og hallar bæði suður og vestur af þeim. Þeir heita Skógarhólar (274).“

Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, svarar þá í spurningalista (í kringum 1980–1984) sem starfsfólk Örnefnastofnunar samdi upp úr örnefnalýsingu Ásgeirs Jónassonar:

88. Hvar og hvernig er Steinbogi? Á Háugjá á Kirkjuvegi frá Skógarkoti.“

90. Gott væri að fá nánari lýsingu á Svuntubala (og staðsetningu). Svuntubali er við kirkjuveginn frá Skógarkoti. Austan við Hellugjá.“

94. Lýtingsvarða? Er vitað um tilgang hennar? Sést hún enn? Hvert liggur gönguvegur yfir Hellholt hjá Lýtingsvörðu? Lýtingsvarða og hellholt eru við göngustíginn, sem liggur til Þingvalla. Kirkjugatan frá Skógarkoti.“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Gönguveg – sem hann kallaði Göngustíg – inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.

Heimildir

Tengd örnefni