Múlakot

Google Maps
Ornefni Atlas Mulakot 3E4a

Múlakot

Múlakot (einnig kallað Mosastaðir) er eyðibýli undir Ármannsfelli. Það er staðsett í krika vestan Fjárhúsamúla og dregur nafn sitt af honum. Vestan Múlakots eru Skógarhólar og þar fyrir neðan er Þingvallarétt.

Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var Múlakot aðeins byggt í eitt ár í kringum 1680–1681. Var það kallað Mosastaðir og byggt upp úr fjárhúsum frá Svartagili, sem þá var í eyði. Engar sagnir hafa varðveist af eldri byggð í Múlakoti en það mun ekki vera óhugsandi. Staðurinn er í landi Þingvalla og hafa Mosastaðir að öllum líkindum verið hjáleiga þeirra.

Í Múlakoti ber helst á tveimur fjárhúsum frá 19. eða 20. öld. Bæði snúa þau frá norðri til suðurs og er það eystra talsvert smærra. Vestara fjárhúsið skiptist í tvennt og hefur hlöðu við norðurgaflinn. Við norðausturhorn þess vottar fyrir eldra mannvirki, afar litlu, sem gæti hafa verið 17. aldar bærinn.

Mannvirki þessi standa innan eða ofan á sporöskjulaga garðlagi sem mælist um 32 x 40 metrar að stærð. Ekkert er vitað um aldur þess eða hvort það hafi yfir höfuð verið reist samtíma Mosastöðum. Garðlagið er áhugavert sökum þess hve fáar hliðstæður það hefur í Þingvallasveit. Það er töluvert stærra en áhleðslurnar á Lögbergi og Spönginni (báðar um 20 m í þvermál) en nokkuð umfangsminna en garðlögin fornu á eyðibýlunum Litla-Hrauntúni (60 x 40 m, afar óljós) og Rótólfsstöðum (tvö 50 x 50 m garðlög eða eitt 110 x 50 m).

Litlar sem engar fornleifarannsóknir hafa farið fram í Múlakoti, sem var friðlýst árið 1927, utan vettvangsathugana. Staðurinn gæti þó veitt mikilvæga innsýn í byggðarsögu Þingvallasveitar. í því samhengi nefna að í 14. kafla Hænsna-Þóris sögu hafi alþingi verið haldið undir Ármannsfelli eitt árið og er þess einnig getið í kirknatali Páls Jónssonar frá um 1200. Í einni útgáfu kirknatalsins frá 17. öld (Stockh. Papp. 8:vo nr. 25) er sagt að kirkja hafi staðið undir Ármannsfelli og sjáist tóftir hennar þar enn. Langsótt gæti reynstkanna sannleiksgildi þessara frásagna – og eru hér líklegast jarðbundnari útskýringar undir sverði – en þó er eitthvað sem tengir þinghald við rætur Ármannsfells og hægt væri að kanna nánar.

Múlakot í frumheimildum

Svo segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1711, bls. 366–367:

„Múlakot er kallað örnefni upp undir Ármannsfelli austan fram, það var fyrir 30 árum bygt um eins árs tíð, og var þá bygt upp úr fjárhúsum frá Svartagili. Aldrei meinast þar fyrri bygð verið hafa, og ekki nema um þetta eina ár, hefur það og allajafna síðan í auðn verið. Svartagil var þetta ár í eyði, og hafði Múlakots ábúandinn það þá til slægna, og því meinast landskuldin og leigukúgilda fjöldinn þar þá verið hafa hið sama sem nú er á Svartagili. Þetta kot hefur og verið kallað Mosastaðir [þessi setning er rituð út á rönd].“

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir svo í riti sínu Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni, 1945:

„Múlakot er sunnan-undir Ármannsfelli, í krika vestan-við Fjárhúsamúla, svo-nefndan. Sér þar sporbaugsmyndaða girðing (40 x 32 m.) og 5 tóftir í henni. Tvær eru þeirra gamallegastar, sambyggðar, nyrzt í girðingunni, og þar virðist kotið kunna að hafa verið; en af fjárhúsum hér, frá Svartagili, dregur múlinn þó nafn. Austan við þær er þriðja smátóftin, stök og að sumu leyti mjög nýleg, fjárhústóft, en suður-undan þeim eru rústir af tveim fjárborgum, og var hin syðri og stærri notuð fram yfir 1860.“

Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Svartagilsland sem rituð var í kringum 1980–1985:

Framan við það eru birki klæddir hólar Skógarhólar (5). Austan við þá er háls úr fjallinu, Fjárhúsmúli (6), og neðst við múlann eru tættur frá fjárhúsum og einhverri mannabyggð, Múlakot (7).“

Kristján segir þá í örnefnaskrá sinni um Hrauntúnsland og afrétti Þingvallahrauns sem rituð var í kringum 1980–1985:

„Norðvestan við [Sleðaás] er all breiður hvammur sem kallast Bolabás (11). Í honum og fjallinu eru 2 gil, það eystra Básgil (12) en hitt ytra Grásteinsgil (13). Þar norðvestar kemur háls sem nær upp í fjallsbrún, Fjárhúsmúli (14). Vestan undir múlanum eru húsatættur sem hét Múlakot (15). Þar fyrir vestan er slétt svæði árunnið úr fjallinu notað sem keppnissvæði hestamanna. Austan við svæðið er all stór klettahóll og vestan við hann voru byggðar safnréttir í staðinn fyrir réttina við Sleðás.“

Guðmann Ólafsson, bóndi á Skálabrekku, segir svo í athugasemdum sínum við skrá um örnefni í afrétti Þingvallasveitar árið 1982:

„Fyrir vestan Básöxlina (8) er Húsmúli (50). Þar, undir Húsmúlanum, var bær, sem hét Múlakot (51) (Guðmann kannast ekki við nafnið Múlastaðir (9)). Tóftir eru þar ennþá.“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Múlakot inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar skammt austan núverandi staðsetningar.

Heimildir

Tengd örnefni