Leynir er lítil, aflöng laut í undirlendinu vestan Arnarfells. Leynir er í ræktuðu graslendi skammt norðan Arnarfellsbæjarins, nálægt vatnsbakka Þingvallavatns. Skammt norðan Leynis er Hrútaklettur.

Leynir í frumheimildum

Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá Arnarfells frá 1982:

„Framan við túnið í víkinni er malarkambur og ofan við hann er tjörn. Túnið upp af henni er brött brekka, og efst á brekkubrúninni er gamalt fjárhús og hlaða. Þar í norður myndast allbreiður slakki, sem nú er orðinn að túni. Norðan við þann slakka gengur lítil laut til norðvesturs og heitir Leynir og liggur niður að standbergi 10–20 m háu.“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Leyni inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar 50 metrum norðaustan núverandi staðsetningar (64.21560,-21.0910).

Heimildir