Skógarkotsgata/Vatnskotsgata

Google Maps
Ornefni Atlas Skogarkotsgata B7fd

Skógarkotsgata/Vatnskotsgata

Skógarkotsgata og Vatnskotsgata er gönguleið í Þingvallahrauni milli Skógarkots og Vatnskots. Leiðin er sérstök að því leyti að nafn hennar ræðst af kotbýlinu sem stefnan er tekin á hverju sinni: heitir hún því Skógarkotsgata þegar hún er farin til norðurs en Vatnskotsgata á suðurleið. Gatan hefur þjónað erindum hraunbúa á bæjunum tveimur og er nú haldið við sem merktri gönguleið.

Leiðarlýsing

Hér verður Skógarkotsgata (2,2 km, 30–40 mínútur) gengin til norðurs milli Vatnskots og Skógarkots. Leiðin er auðveld, greinileg og stikuð og tilvalin þeim sem vilja kanna fáfarnari götur í Þingvallahrauni.

Lýsingin hefst á bílastæðinu í Vatnskoti. Gengið er fram hjá þjónustuhúsum tjaldgesta og stangveiðimanna og þaðan til austurs eftir skýrum slóða. Túngarðsleifar sjást á hægri hönd. Brátt er farið fram hjá Tóftum, þar sem einn af gömlu bæjunum í Vatnskoti stóð áður fyrr, síðan til norðurs og yfir akveginn.

Skógarkotsgata

Horft til norðausturs að Hrafnabjörgum frá götunni nálægt Vatnskoti. Tóftir eru hægra megin við miðju myndarinnar.

Frá akveginum liggur Skógarkotsgata um fallegt lyng- og kjarrlendi. Þar skiptast á þéttir skógarreitir og eyður með góðri fjallasýn. Lítið er þó um örnefni á leiðinni. Má þar helst nefna Digruvörðu á hól nokkrum vestan götunnar, ríflega hálfum kílómetra norðan akvegarins. Skógurinn þar fyrir vestan heitir Biskupsvörðuskógur og hólarnir sunnan hennar Fjárhúshólshryggur.

Skógarkotsgata

Horft til norðurs á miðbiki leiðarinnar milli Vatnskots og Skógarkots. Digravarða er sögð standa á hól skammt suðvestar.

Eftir nokkra stund er gengið fram hjá hringmyndaðri, grasi gróinni laut á hægri hönd. Austan hennar, nálægt veginum, heitir Vatnsdalshæð; við hana er örnefnið Vatnsdalur þar sem úrkomuvatn hefur að líkindum safnast fyrir. Skammt innar og rétt vestan götu er stór, klofinn hóll sem nefnist Gjáhóll. Hann er nú illgreinanlegur vegna mikillar gróðursprettu. 

Ekki líður nú á löngu þar til túnið í Skógarkoti blasir skyndilega við. Leiðin liggur hér inn á svonefndan Vaðmálsbala og sameinast Veiðigötu inn að bæjartröðunum. Lýkur þar lýsingunni.

Skógarkotsgata

Horft inn að Skógarkoti rétt sunnan Vaðmálsbala.

Skógarkotsgata/Vatnskotsgata í frumheimildum

Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni segir svo í grein sinni Örnefni í Þingvallahrauni í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1937–1939:

„Traðirnar í [Skógarkotstúninu] liggja til suðvesturs; fram af þeim er stór, sljettur hellubali, sem heitir Vaðmálsbali (135); munu þar hafa verið breidd vaðmál til þerris; þar var einnig þurkuð ull, meðan það var í tízku. Yfir Vaðmálsbala liggur vegurinn við túngarðinn og frá honum, einnig Vatnskotsgata (136) og Veiðigata (137).“

Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, svarar þá í spurningalista (í kringum 1980–1984) sem starfsfólk Örnefnastofnunar samdi upp úr örnefnalýsingu Ásgeirs Jónassonar:

56. Lá Vatnskotsgata frá Skógarkoti að Vatnskoti? Hvar lá hún? Gatan lá frá Skógarkoti í suðvestur frá tröðunum. C.a. 100 m út í hrauninu lá hún sunnan undir hól, Gjáhól. Alldjúpar sprungur í hólnum, skammt vestar, er laut og brunnur, fénaðar vatnsból frá Skógarkoti.“

Helga S. Melsteð, sem ólst upp í Vatnskoti, segir svo í örnefnaskrá Vatnskots frá 1982:

„Suðaustur af Lautum er stakur hóll, Stekkjarhóll (46). Þarna mótaði fyrir rústum af smákofa eða rétt, eflaust frá Þingvöllum. Aðeins austan við þennan hól er gamall vagnvegur frá Vatnskoti upp á aðalveginn, og þarna uppi frá veginum var gata, sem lá upp að Skógarkoti, en fyrir þeirri götu mótar aðeins ennþá. Hún var kölluð Skógarkotsgata (47), þegar leiðin lá að Skógarkoti frá Vatnskoti, en Vatnskotsgata (48), þegar farið var frá Skógarkoti að Vatnskoti. Vagnvegur lá hins vegar að Skógarkoti upp frá Vellankötlu.“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti örnefnið Skógarkotsveg inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við umræddan götuslóða. Vatnskotsgötu kallaði hann svokallaðan Vatnskotsveg milli Þingvalla og Vatnskots.

Heimildir

Tengd örnefni