Karl er lítill klettadrangur í Þingvallavatni fyrir neðan klettabeltið vestan Arnarfells, skammt sunnan við Syðri- og Innri-Sandskörð. Karl er um 6 x 4 metrar að stærð og rís tæpa sex metra upp úr vatninu.
Karl í frumheimildum
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá Arnarfells frá 1982:
„Bergstallur [Arnarfells] að norðvestan er hár, víða 15-20 m á hæð, beint niður í vatn. Þar sem hann endar að norðaustan er klettadrangur úti í vatninu, sem heitir Karl. Austan við hann eru tvær víkur, Syðri-Sandskörð og Innri-Sandskörð.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Karl inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.