Klif er örnefni við norðurenda Langatangagjáa þar sem þær renna saman við suðurenda Arnarfells (Fjallshorn). Farið er um Klif á leið til og frá Arnarfellsbænum og undirlendinu þar um kring. Þar liggur akvegur sem nú er aðeins ætlaður fótgangandi.
Klif í frumheimildum
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá Arnarfells frá 1982:
„Við Fjallshornið er Klif niður í víkina, sem gengur upp undir Fjallshornið.“
Kristján svarar þá í spurningalista (í kringum 1982–1985) sem starfsfólk Örnefnastofnunar samdi upp úr örnefnaskrá Arnarfells:
„4. Er Klifið erfið leið niður í Sláttulág? Var önnur leið þangað? Eftir að vegur fyrir ökutæki var gerður er all gott að komast í Sláttulág.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Klif inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.