Langitangi (Sauðanes)

Google Maps

Langitangi (einnig nefndur Sauðanes) er örnefni við Þingvallavatn um 1,5 km suðvestan Arnarfells. Tanginn ákvarðar mörk þjóðgarðsins á Þingvöllum (áður Arnarfells- og Þingvallabæjar) og Mjóaness og þaðan liggja mörkin beint norðaustur að Markavörðu við hinn forna Prestsveg.

Lítil, ónefnd vík er sunnan við Langatanga og þar sunnan við er önnur vík sem nefnist Latvík. Milli Langatanga og Arnarfells eru gjár sem kenndar eru við tangann og heita Langatangagjár.

Langitangi í frumheimildum

Kristján Jóhannsson segir svo í örnefnaskrá Arnarfells:

 

„Lýsingin hefst syðst við Þingvallavatn, þar sem merki eru milli Mjóaness og Arnarfells á tanga, sem gengur út í vatnið og heitir Langitangi. Norðaustan við Langatanga eru tvær gjár samsíða vatnsbakkanum og heita Langatangagjár.“

 

Jafnframt er ritað um landamerki Þingvalla og Mjóaness í landamerkjaskrá frá 1886, undirritaðri af séra Jens Pálssyni Þingvallapresti:

 

„Frá Öxarármynni liggur Þingvallavatn fyrir landinu suður að Langatanga/Sauðanesi. Úr klofnum hellusteini á Langatanga liggja svo mörkin beina stefnu að sjá í slakkann milli Gildruholta allt til markavörðu við hinn forna svonefnda Prestsveg.“

 

Sauðanes virðist vera eldra nafn á örnefninu, sbr. landamerkjalýsingu séra Markúsar Snæbjörnssonar 1740:

 

„Á Mjóaness Sídu: i Saudanes fyrer sunnan Arnarfell, þadann beint uppi Prestsveginn og vestur epter sem hann heldur ad Hrafnagiá [...]“.

 

Heimildir

Kristján Jóhannsson. (1982). Arnarfell [Haraldur Finnsson skráði]. Örnefnastofnun Íslands.

Jens Pálsson. (1890). Skrá yfir landamerki prestsetursins Þingvalla, með hjáleigunum Arnarfelli, Skógarkoti, Hrauntúni og Svartagili, þ.e. Þingvallakirkjulands. Í Landamerkjabók Árnessýslu 1883-1949 (bls. 304–305). Þjóðskjalasafn Íslands.

Matthías Þórðarson. (1945a). Lögfesta Markúsar prests Snæbjörnssonar 1740. Í Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni (bls. 283–284). Alþingissögunefnd.

Lögfesta Markúsar prests Snæbjörnssonar 1740. Í Sbr. Matthías Þórðarson. 1945. Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni, Alþingissögunefnd.

Matthías Þórðarson. (1945). Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni (bls. 283-284). Alþingissögunefnd.

 

Pétur J. Jóhannsson. e.d. Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.

Tengd örnefni