Stapatjörn er tjörn í dalverpi vestan megin við Arnarfell. Stapatjörn er aflöng og um fjórir hektarar að flatarmáli, grunn í suðurendann en dýpkar norðan til. Vatnborðið er í sömu hæð og Þingvallavatn og helst það nokkuð stöðugt árið um kring. Engir lækir renna í eða úr Stapatjörn, heldur er hún mynduð af grunnvatni sem streymir upp úr tjarnarbotninum. Engin mæligögn eru til staðar um dýpt tjarnarinnar.
Stapatjörn dregur nafn sitt af litlum móbergshnúk, Stapa, við norðurenda hennar. Fjölskylda Matthíasar Einarssonar læknis, sem átti Arnarfellsjörðina á 20. öld, kallaði tjörnina Gæsavatn. Stapatjörn hefur ranglega verið nefnd Einbúatjörn á kortum í hartnær hálfa öld og stafar það af einföldum misskilningi á örnefnunum Stapa annars vegar og Einbúa hins vegar, sem er klettur við Þingvallavatn tæpum kílómetra norðar.

Horft til norðurs frá Stapatjörn. Fjallshryggur Arnarfells er hægra megin á myndinni og Stapi vinstra megin.
Stapatjörn í frumheimildum
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá Arnarfells frá 1982:
„Upp af túninu [við Arnarfellsbæinn] gengur brík norður á bergið, og austur af henni hallar landinu til austurs að Stapatjörn, sem er djúp tjörn. Suðvestan við hana er gróinn slakki, sem heitir Stekkjarlaut, og við hana er Stekkur. Norðan við Stapatjörn er móbergshnjúkur, sem heitir Stapi.“
Kristján segir þá í svari við spurningalista (í kringum 1982–1985) sem starfsfólk Örnefnastofnunar samdi upp úr örnefnaskrá Arnarfells:
„7. Rennur vatn í eða úr Stapatjörn? Nei.
Hvernig er hún? Nokkuð djúp.
Er líf í henni? Er með smásilung.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Stapatjörn inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.
Heimildir
Kristján Jóhannsson. (1982). Arnarfell [Haraldur Finnsson skráði]. Örnefnastofnun Íslands.
Matthías Matthíasson, Einar Matthíasson, & Haukur Matthíasson. (17. febrúar 1986). Erindi til Þingvallanefndar um framtíð Arnarfells í Þingvallasveit, frá erfingjum Matthíasar Matthíassonar.
Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.