Leirar
Leirar (upphaflega Leirur) eru grasi grónir vellir austan Fögrubrekku. Þeir eru mestmegnis myndaðir af framburði úr Leiralæk sem áður rann óheftur niður Hvannagjá. Enn sér til uppgróinna lækjarfarvega á stöku stað.
Upphaflega hétu flatirnar Leirur en á einhverjum tímapunkti varð hljóðbreyting á örnefninu svo það fallbeygðist í karlkyni. Örnefnið Leirar hefur síðan haldið velli á Þingvallamáli án sérstakra athugasemda. Þar var áður heyjað af hraunbúum og þvottur þveginn við Leiralæk. Staðurinn var undirlagður af tjaldborgum fyrir alþingishátíðina 1930 og kom einnig við sögu í fyrsta landsmóti hestamanna á Þingvöllum 1950.
Alfaraleiðir hafa að öllum líkindum legið um Leirar frá landnámsöld. Var helst farið af hálendinu meðfram Ármannsfelli og um Leynistíg á Hvannagjá, þaðan á Leirar og loks eftir Fögrubrekku niður á Þingvöll. Akvegur var fyrst lagður um hina fornu leið skömmu fyrir 1930. Leifar af gömlum, niðurgröfnum akvegi sjást enn á Leirum vestan núverandi akvegar og er hann nú hluti af gönguleiðinni um Fögrubrekku.
Við austanverða Leira er stór gjá sem kallaðist Leiragjá og á henni er haft sem heitir Leirastígur. Örnefnið Leiragjá hefur einnig verið notað yfir aðra gjá sem er austan og samhliða Hvannagjá. Um Leirastíg liggur Leiragata til Hrauntúns og þaðan er farið áleiðis að Sandskeiðum við Ármannsfell. Frá Leirastíg var einnig farið til Skógarkots um Miðhólagötu, sem nú er torræð. Önnur leið frá Skógarkoti og öllu fjölfarnari, Krókhólagata, liggur inn að sunnanverðum Leirum og fer yfir Sandhólastíg á Sandhólagjá. Draga örnefni þessi nöfn sín af Sandhólum nokkrum sem hafa myndast af framburði og foksandi suður af Leirum.
Vestan Leira, milli Snókagjár og Hvannagjár, heitir Tæpistígur á einu gjárhaftinu og er þar farið upp á hraunflatirnar og bakkana ofan Almannagjár. Þingvallavegur var lagður um stíginn niður á Leira á árunum 1960–1968 og í kjölfar þess var öll bílaumferð um Almannagjá lögð niður. Þingvallavegur var framlengdur til austurs fyrir þjóðhátíðina 1974 og lagður þvert yfir Leirar og Leirastíg. Þjónustumiðstöð þjóðgarðsins á Þingvöllum var reist á Leirum á sama tíma og stendur þar enn.
Nú er tjaldsvæði þjóðgarðsins á Þingvöllum starfrækt á Leirum, sem eru í daglegu máli kallaðir Nyrðri-Leirar og Syðri-Leirar, eftir því hvorum megin Þingvallavegar þeir eru.
Leirar í frumheimildum
Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir svo í riti sínu Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni, 1945, bls. 55–56:
„[Örnefnið Kolsgjá] er nú löngu týnt, en Árni Magnússon segir, að séra Þorkell Árnason í Skálholti (1703–7) hafi heyrt gamalt fólk bera séra Engilbert Nikulásson á Þingvöllum (1617–69) fyrir því, að Kolsgjá sé „sunnanvert vid pláts þad er Leirur kallast, nordur frá Þingvelli.“
Matthías Þórðarson skrifar þá um Leirar (er hann kallar Leirur) á blaðsíðu 90 í sama riti:
„Á sama hátt hefur einnig myndazt jarðvegurinn ofan á hrauninu í mjóa landsiginu austan-við Almannagjá. Á efri staðnum hefur sá framburður komið ofan úr fjöllunum þar fyrir norðan, einkum Ármannsfelli, og með læknum, sem myndast af Grímsstaðagili, Súlnagili, Svartagili og fleiri giljum ofan úr þessum fjöllum. Er þarna komið all-mikið flatlendi, hinar svo-nefndu Leirur. Syðst eru þær grónar, orðnar fagrir vellir, sem hafa verið teknir til heyskapar af síðustu prestum á staðnum.“
Þá lýsir Matthías leiðinni til Þingvalla frá Ármannsfelli á blaðsíðu 94:
„Af Hofmannaflöt var riðið niður með Ármannsfelli og austan-fram með Sleðaási, um Bolaklif og í Bolabás, sem er vestan-undir ásnum. Þá var riðið niður um Fjárhúsamúla, niður sandana á Leynistíg, síðan niður með Hvannagjá, niður Hvannabrekku og á Leirur, þaðan um Fögrubrekku, sem er austan-við Snókagjá, á Vellina efri og Þingvöll. – Á seinni hluta síðustu aldar var farið um hraunið, hjá Hrauntúni og um Leirur, en á þessari öld eða fyrir hér um bil 25 árum var gert greiða en áður milli Hrauntúns og Skógarkots, jafnvel akfært með hestvagna, og var síðan helzt farið þar, unz gerður var akvegur um hraunið suðaustan-undir Fögrubrekku nokkuru fyrir 1930.“
Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni segir svo í grein sinni Örnefni í Þingvallahrauni í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1937–1939:
„[...] þar norður-frá [Skyrklifshólum] eru Sandhólar (283), sunnan og suðaustan við Leira; þeir eru víst að mestu til orðnir úr foksandi af Leirum. Þeir eru nokkuð vaxnir skógi og víði. Í gegnum þá liggur Háa-gjá, sem þá heitir Sandhólagjá (284), að Sandhólastíg (285), sem er við suðausturhorn á Leirum. Þá heitir hún Leiragjá (286), að Jónsstíg (287), sem er stutt vestur frá Stóru-vörðu (288). Leirustígur (289) er á henni norðarlega, við Leira; um hann liggur Leiragata (289) heim að Hrauntúni. [...] Norður frá Þingvöllum heitir hallinn á eystra barmi Almannagjár Fagra-brekka (293) allt að Leirum; þar kemur lækur í gegnum gjána, og hefur hann flutt efnið í Leira eins og Öxará í Þingvelli.“
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, svarar þá í spurningalista (í kringum 1980–1984) sem starfsfólk Örnefnastofnunar samdi upp úr örnefnalýsingu Ásgeirs Jónassonar:
„68. Hvar og hvernig eru Leirar? Leirar eru c.a. 300 metra norðaustur frá efrivöllum (Þingvöllum). Þeir eru framburður úr lækjum ofan við Almannagjá, uppgrónir. Voru nytjaðir til beitar frá Hrauntúni og Skógarkoti.“
Sigurveig Guðmundsdóttir, sem dvaldi í Hrauntúni sumarið 1919, lýsir svo í Jólalesbók Morgunblaðsins 1984, bls. 40:
„Þegar þvottar voru þvegnir í Hrauntúni varð að fara niður á Leirur og þvo við lækinn sem þar rennur enn. Þar voru hlóðir og þar við soðinn þvotturinn.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti örnefnið með rithættinum „LEIRAR (ekki Leirur)“ inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.
Heimildir
Gunnar Þórisson & Pétur J. Jóhannsson. (1983). Þingvallasveit, sveitarlýsing. Í Sunnlenskar byggðir III (bls. 171–216). Búnaðarsamband Suðurlands.
Matthías Þórðarson. (1945). Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni. Alþingissögunefnd.
Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.
Sigurveig Guðmundsdóttir. (22.12.1984). Sumar í Hrauntúni. Lesbók Morgunblaðsins, 39–41.