Sláttulág er brekka syðst á Arnarfelli, vestan Fjallshorns. Gengið er niður að Sláttulág um Klif.
Sláttulág er um 100 metra breið og grasgróin og dregur nafn sitt af grasnytjum Arnarfellsbænda í henni. Troðningur liggur um miðja brekkuna upp á ónefndan móbergsmúla á sunnanverðu Arnarfelli og þaðan liggur troðningurinn norður að Stapatjörn.
Örnefnið Sláttulág virðist einnig hafa teygst yfir víkina sunnan brekkunnar. Víkin er grunn og innst í henni er lítil malarfjara.
Sláttulág í frumheimildum
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá Arnarfells frá 1982:
„Við Fjallshornið er Klif niður í víkina, sem gengur upp undir Fjallshornið. Hún heitir Sláttulág. Brekkan upp af víkinni er vallgróin og var notuð til slægna.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Sláttulág inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.