Skógarkotsvegur
Skógarkotsvegur er nafn á göngu- og reiðveginum milli Þingvalla og Gjábakka sem liggur að Skógarkoti. Hann er hluti af gamla sýsluveginum sem lá frá Borgarskarði við Kárastaði niður um Kárastaðastíg á Almannagjá og inn eftir völlunum, þaðan austur yfir Þingvallahraun, fram hjá Skógarkoti og niður að Tjörnum, þaðan yfir Gjábakkastíg að Gjábakkabænum og um Skógartögl austur að Laugardal. Þessi alfaravegur var oft kallaður Gjábakkavegur austan Þingvalla.
Örnefnið Skógarkotsvegur virðist að mestu upprunnið úr bókinni Þingvellir – staðir og leiðir eftir Björn Th. Björnsson frá 1984. Þar var nafnið notað í stað Gjábakkavegar milli Þingvalla og Gjábakka því það þótti hæfa veghlutanum betur. Nafnatillagan hlaut fljótt brautargengi og á staðfræðikorti Landmælinga Íslands 1994 hlaut veghlutinn milli Þingvalla og Skógarkots nafnið Skógarkotsvegur. Síðan þá hefur nýnefnið fest sig í sessi í örnefnaflóru Þingvalla.
Hér verður örnefnið Skógarkotsvegur haft yfir vegkaflann milli Þingvalla og Skógarkots, en Gjábakkavegur frá Skógarkoti að Gjábakka.
Horft til austurs á Skógarkotsvegi sunnan Skógarhóla.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Leiðarlýsing
Skógarkotsvegur er auðveldur yfirferðar. Hann er breiður og malarborinn, enda var hann gerður vagnfær snemma á 20. öld. Um tveir kílómetrar eru á milli Þingvalla og Skógarkots og tekur gangan um 30–40 mínútur á rólegum hraða.
Gangan hefst hjá Efrivöllum í svonefndum Vallakróki, við vatnsfyllta gjá sem heitir Vallagjá og er framhald Flosagjár í norðri. Gengið er til suðausturs yfir Vallagjá um haft sem heitir Vallastígur og fljótlega er akvegurinn þveraður. Eftir nokkurra mínútna göngu um þétta kjarrbreiðu er komið að ónefndum stíg á Háugjá. Þar opnast gott fjallaútsýni til austurs. Frá Háugjá er farið yfir mosagróna eyðu og þaðan meðfram skógi vaxinni hólaþyrpingu sem kallast Skógarhólar.
Horft til norðurs á stígnum yfir Háugjá.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Ekki líður á löngu þar til grjótgarðurinn í Skógarkoti blasir við. Er þar komið að krossgötum. Til norðurs liggur Nýja-Hrauntúnsgata inn að Hrauntúni og Krókhólagata (Sandhólastígur) að Leirum en til suðvesturs liggur Gönguvegur aftur til Þingvalla. Hér er þó haldið áfram í austurátt og eftir stuttan spöl er komið að bæjartröðunum í Skógarkoti. Er þar upplagt að staldra við og kynna sér bæjarrústirnar og túnið. Hraunflötin framan við traðirnar heitir Vaðmálsbali og þaðan liggja tvær leiðir til Þingvallavatns: sú vestari heitir Vatnskotsgata og fer niður að Vatnskoti en sú eystri Veiðigata; hún liggur að Öfugsnáða.
Leiðin sem hér er til umfjöllunar liggur áfram til suðausturs meðfram túngarðinum og er leiðarlýsingunni haldið áfram í örnefnaumfjöllun Gjábakkavegar.
Horft til austurs framan við bæjartraðirnar í Skógarkoti. Vaðmálsbali í forgrunni.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Skógarkotsvegur í frumheimildum
Séra Björn Pálsson Þingvallaprestur merkir alfaraveginn – sem ber þó ekkert nafn – inn á handteiknað kort af Þingvallasveit í sýslu- og sóknarlýsingu sinni fyrir Hið íslenzka bókmenntafélag árið 1840 (útg. 1979, bls. 186). Liggur vegurinn frá Borgarskarði niður í Almannagjá, eftir völlunum og inn í Skógarkot og þaðan um, að því er virðist, Gjábakkastíg austur að Gjábakka. Vegurinn kvíslast austan Gjábakka og heita þar Laugardalsvegur og Skálholtsvegur.
Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni segir svo í grein sinni Örnefni í Þingvallahrauni í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1937–1939:
„Sunnan í Skógarhólum liggur vegurinn út á Þingvelli; skammt vestur frá þeim er Háa-gjá (279); hún stefnir eins og allar aðrar gjár í nánd við Þingvelli í norðaustur og suðvestur; er á henni stígur, sem vegurinn liggur yfir. Næsta gjá þar stutt fyrir vestan er Vallagjá (280), sem vegurinn liggur einnig yfir. Vallagjá er framhald af Flosagjá og Nikulásargjá. Vallastígur (281) heitir þar, sem vegurinn liggur yfir Vallagjá, og er þá komið á Þingvöll.“
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, svarar þá í spurningalista (í kringum 1980–1984) sem starfsfólk Örnefnastofnunar samdi upp úr örnefnalýsingu Ásgeirs Jónassonar:
„97. Hvað er átt við, þegar sagt er, að á Háugjá sé stígur, sem vegurinn liggi yfir (sjá bls. 159, neðarl.?) Stígurinn yfir Háugjá er á götu, sem liggur frá Skógarkoti.“
Björn Th. Björnsson listfræðingur segir svo í bók sinni Þingvellir – staðir og leiðir (2. útg., 1987), bls. 99:
„Um það bil nyrzt á [Vallagjá] er á henni Vallastígur, en um hann liggur Gjábakkavegur, – eða réttar kallaður Skógarkotsvegur á þessum kafla – , sem enn er mjög greinilegur og auðgenginn.“
Björn bætir við á blaðsíðu 147 í sömu bók:
„Mest þeirra og greinilegust er vegur sá sem liggur í gegnum hraunið frá Vallakrók, yfir Vaðmálsbalann í Skógarkoti, niður hjá Tjörnum og loks upp frá Vellankötlu og á Gjábakkastíg. Hefur leið þessi verið nefnd Skógarkotsvegur.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, segir svo í sveitarlýsingu Gunnars Þórissonar frá Fellsenda um Þingvallasveit í Sunnlenskum byggðum III, 1983, bls. 184:
„Frá Þingvöllum lágu tvær höfuðleiðir suður og suðaustur um sveitir, austan vatnsins. Upphaflegt val þessara leiða hefur ráðið hvar var með góðu móti hægt að komast yfir Hrafnagjá. Eystri leiðin lá innst af Völlunum, við endann á Vallargjá, austur yfir hraunið og yfir Háugjá á góðum stíg, síðan að Skógarkoti og niður með því að vestan [...] beint áfram niður í Vatnsvik og sameinast þar leiðinni frá Þingvöllum sem lá austur með vatninu.“
Bætt er við á blaðsíðum 187–188 í sömu bók:
„Eftir [landsigið í jarðskjálftahrinunni 1789] var nauðsynlegt að finna aðra leið yfir Almannagjá og einnig til Þingvalla austan yfir hraunið frá Vatnsviki, því að gjáarnetið fyrir austan Þingvelli var algjörlega ófært þar sem engin brú var yfir Flosagjá. Því er nokkurn veginn víst að leiðin frá Vatnsviki fram hjá Skógarkoti og út á Þingvöll hefur verið valin sem aðalleið yfir hraunið.“
Þá er sagt neðarlega á blaðsíðu 188:
„Í auglýsingu frá Suðuramtinu 1878 er sagt að sýsluvegur liggi um Þingvallasveit en ekki skýrt frá því hvar hann liggi um sveitina. Því er nærtækast að athuga hvaða vegir innan hreppsins voru hreppsvegir. Það sést með því að skoða í hvaða vegi skyldudagsverk hreppsbúa fóru.
Trúlega hefur sýsluvegurinn byrjað í Vilborgarkeldu og eftir gömlu leiðinni um Selbrúnir í Borgarskarð (sem nú er kallað Kárastaðaskarð), austur um hraunið nálægt því sem vegurinn liggur nú og ofan í Almannagjá um Kárastaðastíg. Niður úr gjánni sunnan við Lögberg, yfir Öxará og inn vellina í Vallakrók, austur yfir hraunið fram hjá Skógarkoti, niður að Vellankötlu. Þaðan upp yfir Hrafnagjá á Gjábakkastíg, fram hjá Gjábakka fyrir austan túnið og síðan austur yfir Hrafnabjargaháls. Í þessa leið lætur hreppurinn aldrei neitt af sínum skyldudagsverkum fyrr en 1907 þegar brú er komin á Flosagjá og vegur kominn austur með vatninu að Vatnsviki. Þá fór hreppurinn að sjá um veginn fram hjá Skógarkoti því þá var hann ekki lengur sýsluvegur.“
Horft til austurs nálægt Skógarkoti. Kálfstindar í fjarska.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Heimildir
Björn Pálsson. (1979). Þingvalla- og Úlfljótsvatnssóknir. Í Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenzka bókmenntafélags 1839-1843 og lýsing Ölfushrepps anno 1703 eftir Hálfdán Jónsson (bls. 171–192). Sögufélag.
Björn Th. Björnsson. (1987). Þingvellir – staðir og leiðir (2. útg.). Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
Gunnar Þórisson & Pétur J. Jóhannsson. (1983). Þingvallasveit, sveitarlýsing. Í Sunnlenskar byggðir III (bls. 171–216). Búnaðarsamband Suðurlands.