Langatangagjár

Google Maps

Langatangagjár nefnist 1,5 km langur sprungusveimur sunnan Arnarfells. Gjásprungur þessar eru kenndar við svonefndan Langatanga – þar sem þær koma á land undan Þingvallavatni – og liggja frá honum í tveimur reinum inn að Arnarfelli. Gjárnar eru skammt frá vatnsbakkanum og vatn finnst í botni sumra þeirra.

Gjárnar liggja fram hjá tveimur klettadröngum skammt norðan Langatanga og kallast þeir Sauðasteinar. Kippkorn norðar skerast gjárnar gegnum svokallaðan Klofhól.

Langatangagjár eru ekki ýkja stórar í samanburði við aðrar gjár á Þingvöllum en geta þó verið mjög varasamar. Landsig hefur orðið við vestari barminn og myndað brekkuhalla.

Langatangagjár hverfa að lokum inn í Fjallshorn, syðst á Arnarfelli og mynda misgengi í fellinu. Þar heitir Klif, þar sem vegurinn að Arnarfellsbænum liggur niður í Sláttulág. Norðan Arnarfells kemur sprungusveimurinn aftur í ljós en þar mun stærri og heitir Hrafnagjá.

Langatangagjár í frumheimildum

Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá Arnarfells frá 1982:

„Norðaustan við Langatanga eru tvær gjár samsíða vatnsbakkanum og heita Langatangagjár. Þær eru í beinu framhaldi af Hrafnagjá.“

Kristján segir þá í svari við spurningalista (í kringum 1982–1985) sem starfsfólk Örnefnastofnunar samdi upp úr örnefnaskrá Arnarfells:

2. Er vatn í Langatangagjám? Já.“

Heimildir

Tengd örnefni