Krókhólagata
Krókhólagata er gönguleið í Þingvallahrauni milli Skógarkots og Leira. Hún liggur til norðvesturs frá Skógarkoti og fram hjá Krókhólum, þaðan yfir Sandhólastíg á Sandhólagjá og inn að Leirum. Gatan er langsamlega oftast kölluð Sandhólastígur eða um Sandhólastíg eftir leiðarhlutanum yfir gjána.
Leiðin um Sandhólastíg var áður farin af ábúendum Skógarkots sem nytjuðu Leirar og Snókagjá. Ábúendur töldu að í öndverðu hafi gatan verið hluti af fyrstu þjóðleiðinni um Þingvallahraun. Þá hafi verið farið frá Efrivöllum norður að Sandhólum, yfir Sandhólastíg eftir umræddri götu að Þórhallastöðum og þaðan um Klukkustíg á Hrafnagjá. Nú er Krókhólagata vinsæl gönguleið meðal gesta þjóðgarðsins.
Leiðarlýsing: Krókhólagata milli Leira og Skógarkots
Hér verður leiðin rakin frá Leirum suðaustur að Skógarkoti. Um 30–40 mínútna gangur er á milli staðanna. Gatan er allgreinileg og stikuð, um tveggja kílómetra löng og jafnlend. Hún er auðveld yfirferðar, þótt götubotninn geti verið grýttur á sumum stöðum.
Lýsingin hefst við framan við þjónustuhús tjaldsvæðisins á Syðri-Leirum, hjá vegvísi sem á stendur Sandhólastígur. Gatan liggur héðan til hásuðurs með stefnu á Sandhóla og sveigir þaðan yfir Sandhólagjá um Sandhólastíg. Stigið er auðvelt yfirferðar en allur er varinn góður, því hér eru hyldjúpar sprungur.
Farið yfir varasamar sprungur á Sandhólastíg. Ármannsfell og Skjaldbreiður í fjarska.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Austan Sandhólastígs liggur gatan um gróðurlitla mosabala. Hér er afar góð fjallasýn. Stefnan er tekin á Krókhóla sem eru þrír talsins og rísa nokkuð hátt upp úr flatlendinu. Gatan krækist um hólana að suðvestanverðu og þykknar nú kjarrið lítillega.
Krækt um Krókhóla að norðanverðu.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Eftir nokkurn spöl liggur leiðin milli tveggja lágra hæða. Sú syðri er mishæðótt og kallast Jónsvörðubalar, eftir vörðubroti sem nú er líklegast horfið innan um birkigróður. Nyrðri hæðin kallast Réttarholt. Laut nokkur er þar skammt ofan götunnar sem nefnist Kattardalur. Brátt sést í Balann, grasi gróinn höfða innan um grjóthlaðna túngarðinn í Skógarkoti. Krókhólagata sameinast hér Nýju-Hrauntúnsgötu. Héðan er upplagt að ganga um traðirnar inn á túnið, virða eyðibýlið fyrir sér og njóta kyrrðarinnar sem ríkir í Þingvallahrauni.
Frá Skógarkoti liggja leiðir til allra átta: vestur til Þingvalla um Skógarkots- og Gönguveg, suður að Þingvallavatni um Vatnskots- og Veiðigötu, austur að Hrafnagjá um Gjábakkaveg og Klukkustígsleið og til norðurs um Hrauntúnsgötu og Nýju-Hrauntúnsgötu.
Horft til norðvesturs að Búrfelli og Botnssúlum á miðri leið, skammt sunnan Krókhóla.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Krókhólagata í frumheimildum
Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni lýsir helstu örnefnum við leiðina í grein sinni Örnefni í Þingvallahrauni í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1937–1939. Ekki er þó minnst á leiðina sjálfa.
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, svarar spurningalista (í kringum 1980–1984) sem starfsfólk Örnefnastofnunar samdi upp úr grein Ásgeirs Jónassonar. Þar er þessi setning handskrifuð aftan á vélritið:
„Fyrsta leiðin sem lá frá Þingvöllum, lá um efri Velli yfir Háugjá á Sandhólana fram-hjá Þórhallastöðum, á milli Klukkuhóla og Klukkustíg yfir Hrafnagjá fyrsta færa leiðin til austur sveita.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti örnefnið Krókhólagötu inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við upphaf leiðarinnar frá Skógarkoti.