Veiðigata

Google Maps
Ornefni Atlas Veidigata Ece2

Veiðigata

Veiðigata er gömul gönguleið milli Skógarkots og Öfugsnáða við Þingvallavatn. Ábúendur í Skógarkoti fóru um hana er þeir reru til fiskjar í vatninu og til ullarþvotta.

Leiðarlýsing

Veiðigata er ógreinileg á köflum, enda með fáfarnari gönguleiðum í Þingvallahrauni, en auðveld yfirferðar og stikuð. Hún er um 1,7 kílómetrar að lengd, ef miðað er við afleggjarann niður að Öfugsnáða, en tæplega tveir kílómetrar frá Þingvallavatni. Gangan í heild sinni tekur um 30–40 mínútur.

Leiðarlýsingin hefst á malarstæðinu við Öfugsnáða. Áður en lengra er haldið er upplagt að hefja förina við vatnsbakkann og kynna sér athafnasvæði Skógarkotsbænda. Gengið er til suðvesturs út á sjálfan Öfugsnáða sem er lítill tangi í Þingvallavatni. Áður hét hann Langitangi, en í jarðskjálftahrinu 1789 sökk stór hluti hans undir vatnsborðið. Tveir hólmar vestan Öfugsnáða bera enn hið gamla nafn og frá þeim var veiðisvæði Skógarkots ákvarðað allt austur að Hallviki.

Skógarkotsbændur nýttu sér Öfugsnáða til aðrekstrar fjár á vorin. Bátalægi var vestan tangans í Öfugsnáðavík (Bátsvík) en þvottastaður bæjarins var austan hans í Hlóðavík. Þar voru hlóðir hlaðnar nálægt uppsprettulind við vatnsbakkann og fatnaður þveginn.

Öfugsnáði

Horft til norðausturs frá Öfugsnáða. Bátalægi var í Öfugsnáðavík vinstra megin á myndinni en þvottastaður í Hlóðavík hægra megin.

Frá Öfugsnáða er gengið aftur inn á bílastæðið, síðan til norðurs eftir aðkeyrslunni, yfir akbrautina hjá afleggjaranum og síðan inn á Veiðigötu. Þar tekur við þéttur og sældarlegur birkiskógur með iðandi botngróðri. Skammt vestan götunnar leynist varða nokkur, Þuríðarvarða, á lágum hól.

Eftir stuttan spöl er komið inn á nokkuð mosagrónar flesjur sem stefna frá vestri til austurs. Þær heita einu nafni Eyður og ná austur að Lágubrún.

Eyður

Horft til vesturs frá Eyðum. Skálafell og Kárastaðahlíð í fjarska.

Frá Eyðum og allt norður að Skógarkoti skiptist leiðin á að þræða þéttar og hávaxnar trjábreiður, þar sem vegfarendur hverfa inn í friðsælan birkiskóginn, og kjarrlitla lyngbletti sem opna á útsýni yfir mestallan fjallasalinn sem umlykur Þingvallasvæðið.

Aflangur hraunhóll vestan götu, þegar leiðin er ríflega hálfnuð, kallast Sauðasteinar. Þar fyrir norðan er gamall fjárhellir frá Skógarkoti, laut sem heitir Vatnsdalur og lág hæð sem kennd er við hann. Skógurinn austan götu heitir Hrútabrekkuskógur.

Veiðigata

Reisulegt skógarþykkni hjá Veiðigötu, skammt sunnan Sauðasteina.

Þegar komið er á lokaspölinn blasa Botnssúlur við frá götuslóðanum. Ekki líður á löngu þar til grasgrónar hraunöldur birtast neðan Súlna og skóglendið þverr. Hér er komið að túninu í Skógarkoti. Veiðigata liggur að bæjartröðunum yfir svonefndan Vaðmálsbala og sameinast þar Skógarkotsgötu (Vatnskotsgötu).

Frá Skógarkoti er úr mörgum öðrum leiðum að velja ef ætlunin er að taka stærri hring í hrauninu: Skógarkotsvegur eða Gjábakkavegur liggur fram hjá Skógarkoti milli Vallakróks og Vellankötlu, tvær Hrauntúnsgötur fara inn að eyðibýlinu Hrauntúni, Krókhólagata norðvestur að Leirum og Klukkustígsleið austur að Hrafnagjá. Einnig er hentugt að ganga Vatnskotsgötu (Skógarkotsgötu) til baka niður að Vatnskoti og eftir bökkum Þingvallavatns austur að Öfugsnáða, eða ögn lengri krók um Gönguveg suðvestur að Flosagjá og þaðan um Vatnskotsveg aftur að upphafsreit.

Vaðmálsbali

Horft til suðurs frá Vaðmálsbala. Veiðigata, nokkuð óglögg, í forgrunni. Búrfell, Miðfell og Arnarfell í fjarska.

Veiðigata í frumheimildum

Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni segir svo í grein sinni Örnefni í Þingvallahrauni í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1937–1939:

„Þar austur-frá [Fuglstapaþúfu], allt að Mel (112), eru mosaflesjur skóglausar, sem heita Eyður, upp-að svonefndum Sauðasteinum (113), sem eru háir hellubalar með grasbrekkum að sunnan; snúa þeir austur og vestur. Austan-við þá og Hellisvörðu var götuslóði frá Skógarkoti að Öfugsnáða, kallaður Veiðigata (114).“

Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, svarar þá í spurningalista (í kringum 1980–1984) sem starfsfólk Örnefnastofnunar samdi upp úr örnefnalýsingu Ásgeirs Jónassonar:

46. Hvar lá Veiðigata? Veiðigata liggur frá Skógarkoti niður að vatni, gatan endar á Öfugsnáða. Þar var bátalægi.“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Veiðigötu inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við leiðarhlutann nálægt Skógarkoti.

Heimildir

Tengd örnefni