Gjábakkavegur
Gjábakkavegur er nafn á gamla alfaraveginum – eða hluta hans – sem liggur milli Þingvalla og Laugarvatns. Nafnið er dregið af bænum Gjábakka í Þingvallasveit.
Frá Þingvöllum liggur vegurinn til austurs að eyðibýlinu Skógarkoti. Þaðan fer hann niður að Vellankötlu, síðan yfir Gjábakkastíg á Hrafnagjá og loks að bænum Gjábakka, sem nú er í eyði. Þessi vegkafli er nú göngu- og reiðgata og hefur að hluta til kallast Skógarkotsvegur á síðustu áratugum. Hann hefur að líkindum orðið mun fjölfarnari eftir að vaðið yfir ós Öxarár fór forgörðum í jarðskjálftahrinunni 1789 og leiðin meðfram Þingvallavatni lagðist að mestu af.
Frá Gjábakka liggur vegurinn um neðanverðan Hrafnabjargaháls austur um Barmaskarð, fram hjá Laugarvatnsvöllum og þaðan til Laugarvatns. Leiðin er að líkindum forn og því til marks eru frásagnir af þingreiðum í Njálu og Sturlungu. Þessi vegkafli var einnig hluti af Konungsveginum svokallaða og var síðar helsta akbrautin milli Þingvalla og Laugarvatns um áratugaskeið.
Örnefnið Gjábakkavegur virðist hafa náð mestri útbreiðslu sem samgönguörnefni á 20. öld. Nafnið var einnig notað um hluta Þingvallavegar milli Leira og Gjábakka sem var lagður fyrir þjóðhátíðina á Þingvöllum 1974. Heimildamenn innan Þingvallasveitar minnast aftur á móti lítið á örnefnið Gjábakkaveg og virðast ekki alltaf hafa notað sérstakt nafn yfir leiðina.
Leiðarlýsing: Gjábakkavegur milli Skógarkots og Gjábakka
Hér verður farið til austurs eftir Gjábakkavegi milli eyðibýlanna Skógarkots og Gjábakka. Um 4,3 kílómetrar eru þar á milli og tekur gangan ríflega eina klukkustund. Farið er um breiðan, malarborinn og stikaðan veg í miklu jafnlendi, ef frá er talinn stuttur kafli á Hrafnagjá. Greint er frá leiðarstúfnum milli Þingvalla og Skógarkots (2 km) í örnefnaumfjöllun Skógarkotsvegar.
Lýsingin hefst framan við bæjartraðirnar í Skógarkoti, hjá svokölluðum Vaðmálsbala þar sem ábúendur lögðu vaðmál sín til þerris. Héðan liggja tvær leiðir, Vatnskotsgata og Veiðigata, suður að Þingvallavatni og tvær aðrar, er báðar nefnast Hrauntúnsgötur, norður að Hrauntúni. Gönguvegur liggur suðvestur að Þingvallakirkju og Krókhólagata (Sandhólastígur) til norðvesturs að Leirum.
Gengið til suðausturs meðfram túninu í Skógarkoti.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Frá Vaðmálsbala er Gjábakkavegur genginn til suðausturs meðfram grjóthlaðna túngarðinum í Skógarkoti. Þessi hluti túnsins heitir Gerði og var færður þangað út á 19. öld. Við túngarðshornið er hægt að tengja inn á stekkjargötu Skógarkotsbænda að eyðibýlinu Þórhallastöðum, kennt við Þórhall „ölkofra“ sem var uppi á söguöld. Á einum stað við Gjábakkaveg glittir í hól milli hárra barrtrjáa. Hann heitir Ölkofrahóll og í honum er jarðfallið Ölkofradalur. Sunnan vegarins eru kjarri vaxnir hólar sem kallast Gráuklettar.
Litlu síðar er gengið er yfir hraunbungu sem heitir Pelahella og þar er sjónhending að Þórhallastöðum. Frá Pelahellu liggur vegurinn samhliða aflöngum hól og heitir brekkan í honum, sem snýr að veginum, Hrútabrekka og skógurinn vestan hennar Hrútabrekkuskógur.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Brátt verður birkið strjálvaxnara og opnar á útsýni allt inn að Skjaldbreið. Hér eru misgrónar mosaflesjur. Austast á þeim er lágur klapparbali sem heitir Melur og sveigist vegurinn yfir hann. Þaðan er stutt ganga að Tjörnum, þar sem ýmsar fuglategundir dvelja að sumarlagi. Sunnan Tjarna er farið yfir akveginn meðfram Þingvallavatni (Vallavegi) og niður að Vatnsviki. Þar er hin fornfræga uppsprettulind Vellankatla. Nokkur bílaútskot og áningarborð eru skammt frá.
Horft til suðurs yfir Vatnsvik að Arnarfelli. Ein af uppsprettulindunum við Vellankötlu í forgrunni.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Hér er komið að miðbiki leiðarinnar milli Skógarkots og Gjábakka. Frá Vellankötlu er haldið til austurs og yfir akveginn á ný. Nú er komið inn á hluta hins svokallaða Konungsvegar (eða Kóngsvegar) sem lá frá Þingvöllum yfir brú á Flosagjá (Peningagjá) og þaðan austur um hraunið þar sem Vallavegur er nú. Hár og þéttur birkigróður einkennir svæðið. Meira ber þó á barrtrjáareitum frá miðri 20. öld.
Fljótlega er farið fram hjá einum slíkum reit á vinstri hönd. Innan í honum leynist klofinn hraunhóll, Böðvarshóll, og fylgja staðnum munnmæli um forna byggð. Skammt austan Böðvarshóls tekur vegurinn sveig til suðurs og upp eftir Hrafnagjárhallinum. Efst á honum er jarðbrú milli beggja barma Hrafnagjár sem kallast Gjábakkastígur og var fyrst gerður klyffær upp úr 1830. Flóruð stétt er á stígnum og þaðan er tilkomumikið útsýni ofan í gjána.
Gjábakkavegur liggur um Gjábakkastíg á Hrafnagjá. Flóruð stétt í forgrunni.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Leiðarlýsing: Frá Gjábakka að Laugarvatnsvöllum
Frá Gjábakka eru rúmlega átta kílómetrar að Laugarvatnsvöllum. Áður hétu þeir Beitivellir og bregður því örnefni fyrir sem áningarstað þingreiðarmanna í Brennu-Njáls sögu (136. og 137. kafla) og Sturlunga sögu (134., 135. og 167. kafla). Sömu fornrit geta annarrar leiðar, Skálholtsvegar, sem sameinast Gjábakkavegi á einum tímapunkti. Má því fullyrða að hér sé farið um fornar slóðir.
Víkur nú lýsingunni aftur að Gjábakkabænum. Stórt tún hefur þar verið ræktað ofan á hraunbölum og heitir einn þeirra, nálægt veginum, Bænhóll; nafnið skírskotar í munnmæli um gamalt bænhús á staðnum. Malarslóði liggur til vesturs að bæjarrústunum. Rétt áður er komið að nýlegri göngu- og reiðbraut sem liggur frá Gjábakka inn að Ármannsfelli eftir gamla girðingarstæði þjóðgarðsins.
Horft til suðvesturs hjá Gjábakka. Malarbrautin liggur inn að bæjartúninu. Gamli Gjábakkavegurinn lengst til vinstri.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Héðan liggur Gjábakkavegur til suðausturs. Brátt sést í stóran, sprunginn hól sem heitir Stekkjarhóll og sunnan hans er grasblettur og fjárhús. Hér breytist vegurinn úr moldarruðningi yfir í akbraut með bundnu slitlagi. Þessi hluti Gjábakkavegar (stundum kallaður Barmaskarðsbraut eða hluti af Laugardalsvegi) var aðalsamgönguæðin milli Þingvalla og Laugarvatns frá því hann var endurbættur 1962 og þar til Lyngdalsheiðarvegur leysti hann af hólmi 2010. Enn má aka þennan veg; þá er beygt af Þingvallavegi við sunnanvert Gjábakkatúnið og ekið meðfram því fram hjá Réttarhól. Þaðan liggur leiðin um þétt kjarrlendi, Skógartögl, og austast í þeim eru örnefnin Taglabrún og Taglaflöt.
Tveimur kílómetrum austan Gjábakka er komið að Undirgangi sem er löng röð jarðfalla innan úr Eldborgum. Jarðgöng liggja undir Gjábakkavegi milli tveggja jarðfalla og heita Stelpuhellir. Héðan verður landið nær skóglaust og einkennist helst af mosagrónum hrauntungum sem hafa runnið niður hlíðarnar. Nokkrar vörður eru hlaðnar við veginn til auðkenningar.
Austan Stelpuhellis er komið að vegamótum. Hinn forni Skálholtsvegur liggur héðan til suðausturs yfir Lyngdalsheiði og til Skálholts. Skýr slóði liggur einnig frá Skálholtsvegi frá vegamótunum vestur um Skógartögl að Gjábakka, nokkuð sunnan Gjábakkavegar. Þá hefur önnur þjóðleið, Klukkustígsleið, að sögn legið héðan norður að Nikulásarhólum, yfir Klukkustíg á Hrafnagjá og þaðan að Þórhallastöðum og Skógarkoti.
Áfram liggur Gjábakkavegur til austurs. Glöggt má greina eldri slóða við vegöxlina að sunnanverðu og annar slóði er samhliða veginum skammt norðar. Lítið fell er á vinstri hönd sem heitir Stóri-Dímon (eða Stóra-Dímon) og liggja þjóðgarðsmörkin um hann milli Hamrasels og Eldborga. Farið er út úr þjóðgarðinum rétt vestan afleggjara á vegi sem liggur að framanverðu fellinu og að gígstrompinum Tintron. Þaðan liggur jeppa- og reiðslóði lengst inn eftir Þjófahrauni og sameinast Eyfirðingavegi við rætur Skjaldbreiðar.
Gígstrompurinn Tintron er framan við Stóra-Dímon skammt sunnan Gjábakkavegar.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Austan afleggjarans liggur Gjábakkavegur um Reyðarbarmshraun sem dregur nafn sitt af fjallinu sem nú blasir við. Það hét áður Reyðarmúli og þar mun Ketilbjörn hinn gamli hafa haft viðkomu í landaleit sinni og skilið þar áreyða (urriða) sína eftir. Stefnan er tekin á svokallað Barmaskarð, milli Reyðarbarms og hæðar sem heitir Litli-Reyðarbarmur. Annar forn vegur, Hrafnabjargavegur eða Prestavegur, hefur legið einhvers staðar héðan norður yfir Hrafnabjargaháls og inn að Hofmannaflöt við Ármannsfell. Austan skarðsins er komið að Laugarvatnsvöllum og þaðan eru aðrir sjö kílómetrar að Laugarvatni.
Gjábakkavegur í heimildum
Séra Páll Þorláksson Þingvallaprestur (1748–1821) getur örnefnisins Gjábakkavegar í bréfi þar sem hann lýsir afleiðingum jarðskjálftahrinunnar á Þingvöllum 1789, dagsettu 29. júní það ár (Sbr. Lesbók Morgunblaðsins 05.11.1950, bls. 515):
„Úr Arnarfelli hefur hrunið so, að með því liggur skógur, jörð og grjót. Hrafnagjá hefur og stórum hrunið, og vegur yfir gjána á Gjábakkavegi er ófær orðinn.“
Kristján Magnússon, bóndi í Skógarkoti og hreppstjóri Þingvallasveitar, greinir frá framkvæmdum um veginn, er hann kallar almenningsveg, í bréfi til sýslumanns dagsettu 27. júní 1830 (sbr. Sunnlenskar byggðir III, bls. 177):
„Hér með gefst yður veleðla virðugleikum til kynna um vegabætur í Þingvallahreppi á þessu vori, og hef ég látið ryðja Almenningsveginn frá Hlíð suður að Bitru, Dyraveg yfir fjallið fyrir norðan Hengil, Nesjahraun frá Miðfellsfjalli til Hrafnagjár. Almenningsveginn frá svokölluðum Stelpuhelli til Hrafnagjár austur Hallinn og hraunið til Almannagjár [...]“
Séra Björn Pálsson Þingvallaprestur, sonur séra Páls Þorlákssonar, merkir alfaraveginn – sem ber þó ekkert nafn – inn á handteiknað kort af Þingvallsveit í sýslu- og sóknarlýsingu sinni fyrir Hið íslenzka bókmenntafélag árið 1840 (útg. 1979, bls. 186). Liggur vegurinn frá Borgarskarði niður í Almannagjá, eftir völlunum og inn í Skógarkot og þaðan um, að því er virðist, Gjábakkastíg austur að Gjábakka. Vegurinn kvíslast austan Gjábakka og heita þar Laugardalsvegur og Skálholtsvegur.
Leiðarinnar er lýst vel á blaðsíðum 184–191 í Sunnlenskum byggðum III (1983) eftir Gunnar Þórisson frá Fellsenda og Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti. Athygli vekur að hvergi er hún kölluð Gjábakkavegur. Er þar meðal annars sagt á blaðsíðum 187:
„Eftir [landsigið í jarðskjálftahrinunni 1789] var nauðsynlegt að finna aðra leið yfir Almannagjá og einnig til Þingvalla austan yfir hraunið frá Vatnsviki, því að gjáarnetið fyrir austan Þingvelli var algjörlega ófært þar sem engin brú var yfir Flosagjá. Því er nokkurn veginn víst að leiðin frá Vatnsviki fram hjá Skógarkoti og út á Þingvöll hefur verið valin sem aðalleið yfir hraunið.“
Þá er sagt á blaðsíðum 190–191:
„Frá Nýjavegsendanum, eins og þessi nýi vegur var kallaður, var ruddur kerrufær vegur fram hjá Vellankötlu upp í hraunið hjá Böðvarshól [...]. Frá Böðvarshól að Hallinum er stuttur spotti. Gjábakkastígur á Hrafnagjá var erfiðasti og versti kafli leiðarinnar frá Þingvöllum til Laugarvatns. Frá Gjábakkastíg voru farnir gömlu götutroðningarnir sem áður er á minnst, allt austur fyrir Undirgang að vegamótum Skálholtsvegar. Þar var hann færður sunnar en gömlu göturnar lágu og yfir Hálsinn framan við hæðina sem gígurinn Tintron er á, síðan nokkurn veginn beina stefnu í Barmaskarð.“
Pétur J. Jóhannsson lýsir leiðinni einnig í Þingvallaþönkum sem hann ritaði skömmu eftir útgáfu Sunnlenskra byggða III.
Heimildir
Björn Pálsson. (1979). Þingvalla- og Úlfljótsvatnssóknir. Í Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenzka bókmenntafélags 1839-1843 og lýsing Ölfushrepps anno 1703 eftir Hálfdán Jónsson (bls. 171–192). Sögufélag.
Björn Th. Björnsson. (1987). Þingvellir – staðir og leiðir (2. útg.). Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
Gunnar Þórisson & Pétur J. Jóhannsson. (1983). Þingvallasveit, sveitarlýsing. Í Sunnlenskar byggðir III (bls. 171–216). Búnaðarsamband Suðurlands.
Hverir og landskjálftar (05.11.1950). Lesbók Morgunblaðsins, 514–515.
Matthías Þórðarson. (1945). Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni. Alþingissögunefnd.
Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.
Tengd örnefni
- Blesi
- Bæjargjá
- Böðvarshóll
- Furuskógur
- Gjábakkastígur
- Gjábakki
- Gráuklettar
- Hallur
- Hrafnabjargaháls
- Hrafnagjá
- Hrútabrekka
- Hrútabrekkuskógur
- Konungsvegur
- Melur
- Pelahella
- Réttarhóll
- Skálholtsvegur
- Skógarkot
- Skógarkotsvegur
- Skógartögl
- Stekkjarhóll
- Stelpuhellir
- Stóri-Dímon
- Tjarnir
- Torfa
- Undirgangur
- Vaðmálsbali
- Vatnsvik
- Vellankatla
- Þingvallavatn
- Þingvellir