Hrauntún

Google Maps
Ornefni Atlas Hrauntun C49f

Hrauntún

Hrauntún er eyðibýli í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Það er staðsett í miðri sigdældinni í norðanverðu Þingvallahrauni milli Sleðaásgjár og Hlíðargjár og tæpum tveimur kílómetrum sunnan Ármannsfells.

Við skrif Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1711 var Hrauntún aðeins örnefni í skóginum. Þar var að sögn búið til forna en bærinn lagðist samkvæmt munnmælum í eyði í plágunni miklu og þar hafi síðar verið selstaða frá Þingvallabæ. Annað Hrauntún – síðar nefnt Litla-Hrauntún – hafi þá og verið nokkuð norðaustar og „skammt eitt þar í frá“; var það einnig talið aflagt í plágunni.

Nýbýli var stofnað í Hrauntúni 1830 sem hjáleiga Þingvallabæjar. Það hélst í byggð í rúm 100 ár en var aflagt 1935 í kjölfar þjóðgarðsmyndunar. Þar bjuggu þrjár kynslóðir sömu fjölskyldu sem ræktuðu sæmilegt býli úr nánast engu, hlóðu mikla grjótgarða og varðveittu um leið stóran hluta þekktra örnefna í og við þjóðgarðinn á Þingvöllum.

Hrauntún

Loftmynd af Hrauntúni. Uppdrátt af bænum má finna neðar á síðunni.

Hrauntúnsbærinn

Sigurveig Guðmundsdóttir, sem dvaldi ásamt móður sinni í Hrauntúni sumarið 1919, lýsir húsakynnum Hrauntúnsbænda í grein sinni Sumar í Hrauntúni sem kom út í Lesbók Morgunblaðsins 26. desember 1984:

„Mitt í þessu fagra ilmandi grængresi reis bærinn Hrauntún, hlýr og vinalegur eins og torfbæir einir gátu orðið. Tvær burstir sneru til suðurs fram á hlaðið og bæjargöngin á milli. Baðstofan var með einum sexrúðu glugga á stafni og tveggja-rúðu glugga til vesturs. Stofan var með þrísettum glugga og klædd bárujárni. Baðstofan með eldhúsið og fjósið afturaf var allt klætt torfi. Vandlega hlaðin stétt úr hraunhellum var fyrir framan bæinn. Hlaða, fjárhús og skemma með þvottahjalli lágu við heimtraðirnar sem lágu í norður í átt að Ármannsfelli. Þrennir fjárhúskofar voru dreifðir um túnið. Austur af túninu var afgirt gerði sem notast var við sem kúahaga. Brunnhola var vestan undir baðstofuveggnum.“

Um stofuna í bænum ritar Sigurveig:

„Virðulegasti staður Hrauntúnsbæjar var stofan. Hún var svo virðuleg að fyrstu dagana þorði ég ekki að líta þar inn. Við veggi hinnar blámáluðu stofu stóðu bókaskápar frá gólfi til lofts, bækur á borði, bækur á kistum, allt fullt af bókum, margar í skínandi nýju skinnbandi, gamlar bækur, sögubækur, fræðibækur, tímarit, guðsorð, nýtt og gamalt.“

Hrauntún

Uppdráttur af Hrauntúnsbænum.

Staðhættir og örnefni í túni

Rústir Hrauntúnsbæjarins standa í miðju túninu. Inngangur er á suðurhliðinni, við stóran matjurtagarð sem er áfastur húsgrunninum að framan. Brunnur er hjá vesturhliðinni; þar er enn hægt að nálgast regnvatn á vorin. Skammt vestan við brunninn eru óljósar mannvirkjaleifar á lágum grasbölum.

Heimreiðin liggur að norðausturhorni bæjarins og eru grjóthlaðnar traðir meðfram henni. Þær eru nú nokkuð kjarrgrónar. Flóruð stétt er við traðarendana við bæinn og þar glittir í húsgrunna ýmissa skúra. Sunnan við stéttina eru stórar mannvirkjaleifar með niðurgröfnum kjallara og suðaustan þeirra er útihús.

Hrauntún er umgirt tilkomumiklum, ferhyrndum grjótgarði, ríflega 200 x 200 m á stærð, víða mannhæðarháum en sums staðar hefur hann látið undan trjágróðri. Garðurinn hefur að líkindum verið hlaðinn og færður út í mörgum áföngum og má glöggt greina legu eldri garðbúta í túninu, sérstaklega að norðan- og sunnanverðu. Nokkrar grjóthrúgur eru í túninu og eru þær líklegast þar vegna túnræktar.

Innan þessa grjótgarðs er þvergarður sem aðskilur eystri þriðjunginn frá túninu. Þar var hagi fyrir kýr. Norðaustast í honum er grjóthlaðin rétt og mannvirkjabrot. Þar sunnan við eru forvitnilegar þústir og er ekki óhugsandi að þar leynist forn mannvirki, þótt ekkert verði fullyrt um það að sinni.

Suðaustan í túninu er hóll sem kallast Birgishóll og sunnan hans, upp við túngarðinn, stendur lítið útihús með hlöðu. Vestan túngarðsins er smáhóll og á honum er Litlavarða, um 120 cm há. Suðvestan af henni er Hellishóll og í honum er jarðfall og afar grunnur skúti, tveggja til þriggja metra djúpur. Þar við eru aðrar tvær vörður.

Hrauntún

Lituð hæðarskyggna af Hrauntúni. Bærinn var kortlagður með háupplausnarljósmyndum og draga má fram hverja misfellu í landinu. Rauði liturinn táknar meiri hæð yfir sjávarmáli en blái liturinn lægri hæð. Þessi hæðargrunnur er forsenda ítarlegrar skrásetningar á bæjarstæðinu.

Ítök og nytjar

Hrauntún var hjáleiga í landi Þingvalla og deildi því óskiptum landgæðum milli Þingvallabæjar og annarra hjáleigna hans. Skógarnytjum milli Hrauntúnsbænda og Skógarkotsbænda var þó skipt við Markavörðu, hér um bil mitt á milli bæjanna. Hrauntún átti ekki veiðirétt í Þingvallavatni.

Hrauntúnsbændur söfnuðu mestmegnis kalviði úr skóginum til eldsneytis en skammt austan Hrauntúns er örnefnið Kolgerðir. Þar hefur eflaust verið gert til kola áður fyrr. Norðaustan Kolgerða eru sjónarhólar frá bænum sem nefnast Skyggnirar og Háskyggnirahólar.

Slægjur áttu Hrauntúnsbændur á Hofmannaflöt við Ármannsfell. Einnig hafa bændurnir slegið Sláttubrekku í Ármannsfelli og Biskupsflöt inn við Mjóafell, auk fjölda annarra grasbletta í skóginum. Stundum var farið lengst inn í Sæluhúsaflóa og Brunna til slægna.

Tveir stekkir voru notaðir frá Hrauntúni. Annar þeirra hét Gamli-Stekkur, 900 metrum austan bæjarins. Hinn hét Nýi-Stekkur, neðan við Stóragil í Ármannsfelli í tveggja kílómetra fjarlægð. Fjárgeymslu átti Hrauntún í Lambagjá, rétt norðan bæjarins. Það er þó ekki gjá heldur aflöng, sprungin hraunklöpp með grjóthleðslum fyrir báða enda.

Fjárhellir bæjarins var við Gapahæðir suðaustan Hrauntúns. Engar selstöður eru kenndar við Hrauntún en sunnan Gapahæða eru tveir hólar sem kallast Selhólar.

Samgöngur til og frá Hrauntúni

Hrauntún var úr alfaraleið fram til 1910, þegar Nýja-Hrauntúnsgata var rudd fyrir vagna og bifreiðar. Gata þessi liggur frá Skógarkoti og norður til Hrauntúns, sveigist þar meðfram norðvestanverðum túngarðinum og að bæjartröðunum. Áður fyrr var farið til Skógarkots um Hrauntúnsgötu; hún liggur ögn austar í landinu og hefst við suðausturhorn túngarðsins í Hrauntúni. Þar við er einnig upphaf Gaphæðaslóða sem liggja í suðaustur að fjárhelli bæjarins við Gapahæðir.

Stekkjargata bæjarins – sem ber ekkert nafn – liggur beint austur frá Hrauntúni að Gamla-Stekk undir Stórhólum. Gatan er vörðuð að hluta til og heita tvær þeirra næst bænum Skyggnisvarða og Hálfavarða. Frá Gamla-Stekk virðast einhverjir slóðar liggja áleiðis að Prestastíg.

Heybandsvegur Hrauntúnsbænda heitir Víðivallagata og liggur norðaustur af bænum um Víðivelli inn að Hofmannaflöt, þar sem heyjað var. Gatan er nú gróin og illgreinanleg á köflum en hefur verið endurheimt inn að Brúnavörðu.

Norður af bænum liggur malarslóði og kallast Réttargata. Liggur hún að gömlu skilaréttinni við Sleðaás en nyrðri hluti hennar er ekki malarboinn. Leiðir tvístrast miðja vegu milli Hrauntúns og Ármannsfell og liggur eystri gatan, sem er malarborin, til norðausturs að Sandskeiðum.

Vestur af Hrauntúni, norðan Þrívarðna, liggur ógreinileg leið í gegnum Þrívarðnaskóg og niður bergrima á Sleðaásgjá sem nefnist Jónsstígur. Leiðin er almennt kennd við stíginn og liggur áleiðis að Leynistíg á Almannagjá. Norðan leiðarinnar má sjá móta fyrir öðrum götuslóðum sem virðast stefna í átt að Sleðaási og Ármannsfelli um Löngulág. Hér gæti forn alfaraleið hafa legið niður til Þingvalla. Á þessum slóðum er Stóravarða og skammt austar, nálægt Réttargötu, er Gráavarða.

Að lokum liggur Leiragata frá Hrauntúni í suðvestur og fer um Leirastíg á Leiragjá. Hana fóru Hrauntúnsbændur er þeir þvoðu þvott og ull við Leiralæk, þá er hann rann óbeislaður um Leirar. Leiragata sameinast Nýju-Hrauntúnsgötu skammt vestan Hrauntúns.

Hrauntún

Vesturhlið grjótgarðsins í Hrauntúni. Hrafnabjörg í fjarska.

Hraunbúarnir í Hrauntúni

Halldór Jónsson

Hrauntún var byggt að nýju 1830 af Halldóri Jónssyni (1796–1872) frá Eyrarsveit á Snæfellsnesi, vinnumanni séra Björns Pálssonar Þingvallaprests sem hafði þá nýtekið við prestkallinu. Halldór er sagður hafa reist býlið ofan á gömlu seltóftum Þingvallabænda en gamla bæjarstæðið – Gamla-Hrauntún – hafi verið skammt norðaustar. Engin frekari vitneskja hefur varðveist um þær mannvirkjarústir. Halldór var kvæntur Maríu Jónsdóttur (fædd um 1782, dáin milli 1845–1850) og síðar Guðrúnu Gísladóttur (1816–1867).

Búskapurinn á Hrauntúni einkenndist af miklum harðindum fyrstu áratugina. Bústofninn hafi í fyrstu talið þrjár ær og túnbletturinn gaf aðeins fimm hestburði af töðu. Halldór ræktaði landið síðan af kostgæfni næstu 40 árin og lagði grunninn að sæmilegu meðalbýli, með háum grjótgörðum og túnbletti sem var ræktaður úr nánast engu. Halldór var sæmdur heiðurspeningi („Ærulaun iðni og hygginda“) af Danakonungi árið 1868 fyrir dugnað og hagsýni í búskap og sinnti Halldór hreppstjórastörfum fyrir Kristján Magnússon í Skógarkoti seinustu æviárin.

Jónas Halldórsson

Við andlát Halldórs Jónssonar 1872 var Hrauntún gert að tvíbýli. Tók sonur Halldórs, Jónas Halldórsson (1853–1922), við öðrum helmingnum aðeins 18 ára að aldri. Hinn helmingurinn fór alls til fjögurra annarra bænda. Enginn þeirra dvaldist þar langdvölum. Einn af þeim hét Tómas Jónsson, áður bóndi á Kárastöðum til áratuga. Hann varð úti í kafaldsbyl í janúar 1883. Eftir það hefur Jónas Halldórsson séð alfarið um búskapinn í Hrauntúni og var þar bóndi næstu 50 árin. Hann var kvæntur Hólmfríði Jónsdóttur (f. 1845).

Jónas var rammur að afli og atorkusamur. Hreppstjóri Þingvallasveitar varð hann 25 ára gamall og sinnti því nær alla sína tíð. Fyrir þrítugt vann hann að meiri háttar vegbótum á Kjalvegi og hlóð veginn upp Sandkluftir. Einnig vann hann þreytulaust að grjótgarðinum mikla í Hrauntúni. Jónas var þekktur fyrir sérlyndi og var svo mikill bókasafnari að gestir áttu ekki orð er þeir komu í stofu bæjarins.

Halldór Jónasson

Halldór Jónasson (1878–1969) tók við Hrauntúni að föður sínum látnum 1922 og hélt þar búskap fram til 1935, þegar byggð lagðist af í Þingvallahrauni í kjölfar þjóðgarðsmyndunar. Húsakynnin voru rifin þremur árum síðar. Halldór rak síðar fornbókaverslunina Bókaskemmuna í Reykjavík; hann lést 1969 og er grafinn í Þingvallakirkjugarði.

Halldór vann um 20 ára skeið að vegabótum á hálendinu og var um það rætt (sbr. Árbók Ferðafélags Íslands 1930, bls. 65), að enginn hafi dvalið lengur í óbyggðum – 500 nætur – en Halldór, að Fjalla-Eyvindi undanskildum. Halldór varðaði Kjalveg, ruddi Kaldadal, Uxahryggi og Leggjabrjót sem og Arnarvatnsheiði og Grímstunguheiði.

Ásgeir Jónasson

Vert er að minnast á bróður Halldórs, Ásgeir Jónasson skipstjóra, í þessari umfjöllun. Ásgeir var þaulkunnugur sínum heimahögum og ritaði tvær greinar í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags á 4. áratug 20. aldar. Sú fyrri, Örnefni í Miðfellshrauni og á Miðfellsfjalli í Þingvallasveit, kom út 1932 og hin, Örnefni í Þingvallahrauni, árið 1939. Örnefnaskrár þessar – og sérstaklega hin síðarnefnda – eru einstaklega áreiðanlegar og geta lesendur hæglega notað þær sem leiðarvísa á göngu sinni í hrauninu. Með skrifum þessum tryggði Ásgeir Jónasson áframhaldandi varðveislu örnefna í og við þjóðgarðinn á Þingvöllum.

Hrauntún í ýmsum örnefnaskrám og ritum

Árbók 1930. (1930). Ferðafélag Íslands.

Ásgeir Jónasson. (1939). Örnefni í Þingvallahrauni. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1937-1939, 147–161.

Björn Pálsson. (1979). Þingvalla- og Úlfljótsvatnssóknir. Í Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenzka bókmenntafélags 1839-1843 og lýsing Ölfushrepps anno 1703 eftir Hálfdán Jónsson (bls. 171–192). Sögufélag.

Björn Th. Björnsson. (1987). Þingvellir – staðir og leiðir (2. útg.). Bókaútgáfa Menningarsjóðs.

Böðvar Magnússon. (01.07.1935). Hrauntúns-feðgar. Óðinn (7.–12. tbl.), 74–76.

Elínborg Lárusdóttir. (2017). Tvennir tímar: endurminningar Hólmfríðar Hjaltason. Angústúra.

Gunnar Grímsson. (2020). Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél [B.A. ritgerð]. Háskóli Íslands.

Gunnar Þórisson & Pétur J. Jóhannsson. (1983). Þingvallasveit, sveitarlýsing. Í Sunnlenskar byggðir III (bls. 171–216). Búnaðarsamband Suðurlands.

Halldór Jónasson. (16.10.1941). Þingvallanefnd hefir sofið í einn áratug. Vísir, 2.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. (1991). Þegar sálin fer á kreik: minningar Sigurveigar Guðmundsdóttur. Forlagið.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. 2. bindi: Árnessýsla. (1981). Sögufélag.

Kolbeinn Guðmundsson. (01.07.1952). Hrauntúnsþáttur. Heima er bezt (7. tbl.), 214–217.

Kristján Jóhannsson. (e.d.). Örnefni í Hrauntúnslandi og afrétti Þingvallahrauns [Óbirt efni]. Örnefnastofnun Íslands/Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

Kristján Jóhannsson. (e.d.). Örnefni í Þingvallahrauni. Svör við spurningum [Óbirt efni]. Örnefnastofnun Íslands/Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

Matthías Þórðarson. (1945). Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni. Alþingissögunefnd.

Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.

Sigurveig Guðmundsdóttir. (22.12.1984). Sumar í Hrauntúni. Lesbók Morgunblaðsins, 39–41.

Tengd örnefni